Skókastarinn „gerði það sem aðrir vilja“

Anders Behring Breivik í réttarsalnum 9. maí.
Anders Behring Breivik í réttarsalnum 9. maí. SCANPIX

Hayder Mustafa Quasim, maðurinn sem kastaði skó sínum í Anders Behring Breivik í morgun, segist hafa gert það sem aðrir vilji gera og sjái ekki eftir því. „Miðað við hvað þetta mál er þrúgað af sorg og hatri þá er í raun ótrúlegt hvað allt hefur farið vel fram í réttarsalnum,“ segir lögmaður hans. 

Bróðir hans, Karar Mustafa Quasim, kom einsamall til Noregs 16 ára gamall frá Írak og leitaði þar hælis. Hann var skotinn fjórum skotum á Útey síðasta sumar. „Bróðir minn var drepinn í Útey. Hann var aleinn í Noregi, án fjölskyldunnar. Morðinginn tók líf hans og hann eyðilagði líf mitt og fjölskyldunnar. Ég kom frá Írak til Noregs til að vera viðstaddur réttarhöldin og það hefur haft gífurleg áhrif á mig,“ sagði Quasim eldri við blaðamann Aftenposten sem hitti á hann fyrir utan læknavaktina þangað sem hann var fluttur. 

Grét bróður sinn í alla nótt

Quasim var eini fulltrúi fjölskyldunnar í dómsalnum og sá fyrsti sem veitist að Breivik í réttarhöldunum. Hann kom til Noregs á miðvikudagskvöld og segist hafa grátið bróður sinn í alla nótt og ekki getað sofið. Áður en hann kastaði skónum hafði Quasim setið undir upplestri úr krufningsskýrslu bróður síns og fleiri fórnarlamba Breiviks og hlustað á minningarorð um þau.

„Ég hugsaði allan tímann um bróður minn. Hann er farinn. Líf mitt er eyðilagt. Ég sat og leit í kringum mig. Ég gat ekki skilið hvernig fólk gat bara setið þarna algjörlega aðgerðarlaust og yfirvegað yfir því sem fram fór. Morðinginn hefur eyðilagt líf þeirra allra. Ég byrjaði að skjálfa,“ sagði Quasim við Aftenposten. Stuttu síðar missti hann stjórn á sér, reif af sér skóinn og grýtti honum að Breivik. Hann segist hafa náð augnsambandi við Breivik og viljað koma honum í skilning um hvernig fólki liði.

Breivik tók skókastinu af stillingu

„Þetta hlýtur að vera eitthvað sem hefur safnast fyrir og byggst upp innra með honum í einhvern tíma. En þetta var algjörlega ósjálfrátt," segir lögmaður fjölskyldunnar, Kari Nessa Nordtun, sem þvertekur fyrir að skókastið hafi verið skipulagt. Quasim var færður úr salnum og fluttur til læknis og virðist sem hann hafi fengið einhvers konar taugaáfall. „Hann ofandaði og var ekki með sjálfum sér," segir lögmaðurinn.

Þegar Quasim kastaði skónum og hrópaði á Breivik að fara til helvítis varð uppþot í salnum. Margir fögnuðu honum og tóku undir hrópin, en margir brustu líka í grát. Breivik sjálfur brosti, að sögn Aftenposten. Þegar réttarhöldunum var haldið áfram eftir stutt hlé sagði hann að ef einhverjir vildu kasta í hann skóm væri þeim velkomið að gera það á leið inn eða út úr salnum, en ekki þannig að lögmaður hans yrði fyrir því. 

Ekkert getur breytt því sem hann hefur gert

Quasim segir að þegar fólkið í salnum byrja að klappa hafi hann vitað að hann hefði breytt rétt. „Ég kastaði skónum fyrir alla þá sem morðinginn hefur eyðilagt lífið fyrir. Og ég gerði það sem aðrir vilja gera. Ég fann spennuna líða úr líkamanum og það færðist yfir mig ró.“

Honum hefur verið boðið að ræða við sálfræðing og segist munu þiggja það. „En ég er ekkert klikkaður. Ég vildi bara koma skilaboðum til morðingjans. Ekkert getur breytt því sem hann hefur gert okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert