Segja umskurð mannréttindi

Umskurður drengja er mikilvægur þáttur í gyðingatrú. Dómstóll í Þýskalandi …
Umskurður drengja er mikilvægur þáttur í gyðingatrú. Dómstóll í Þýskalandi sagði umskurnina ólögmæta. Ríkisstjórnin hyggst breyta lögunum. AFP

Sá siður að umskera unga drengi er réttur sem gyðingar og múslímar ættu að njóta áfram. Þetta kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnar Angelu Merkel í Þýskalandi. Ríkisstjórnin segir umskurn snerta trúfrelsi og ríkisvaldið ætti ekki að banna athæfið. Svo lengi sem umskurðurinn sé framkvæmdur á mannúðlegan hátt.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar kemur í kjölfar dóms þýsks dómstóls sem sagði umskurð vera eina tegund ofbeldis. Hópar gyðinga og múslíma í Evrópu hafa harðlega gagnrýnt niðurstöðuna en í hvorumtveggja þessum trúarbrögðum er umskurn drengja mikilvægur þáttur trúarlífsins.

BBC hefur það eftir Steffen Seibert, talsmanni þýsku ríkisstjórnarinnar, að stjórnvöld vilji halda því til haga að Þýskaland sé opið fyrir múslíma og gyðinga jafnt sem aðra.

Seibert segir stefnt að því að útrýma allri lagaóvissu varðandi umskurð með lagabreytingum. Hann sagði trúfrelsi grundvallarreglu sem ríkið verði að virða.

Í kjölfar dómsins hafa samtök lækna í Þýskalandi bannað heilbrigðisstarfsmönnum að framkvæma umskurð. Á meðan lagaleg óvissa sé til staðar muni læknar ekki taka áhættuna af því að verða hugsanlega ákærðir í kjölfar umskurðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert