Sakaður um að kaupa þingmenn

Austurríska þingið. Úr myndasafni.
Austurríska þingið. Úr myndasafni. Wikipedia/Jean Fonseca

Milljarðamæringurinn Frank Stronach hefur lagt grunninn að nýjum stjórnmálaflokki í Austurríki sem ætlað er að berjast gegn aðild landsins að evrusvæðinu. Þetta kemur meðal annars fram á fréttavefnum Financial Post.

Hann hefur þegar fengið fjóra þingmenn á austurríska þinginu til þess að ganga til liðs við hinn nýja flokk, annars vegar frá Bandalagi um framtíð Austurríkis (BZÖ) og hins vegar Jafnaðarmannaflokknum. Flokkarnir tveir hafa sakað Stronach um að kaupa þingmennina.

Nýja flokknum er ætlað að berjast fyrir flötum og lægri sköttum í Austurríki, minna skrifræði, umbótum í heilbrigðiskerfi landsins og sem fyrr segir andstöðu við aðild landsins að evrunni. Hins vegar leggst flokkurinn ekki gegn veru Austurríkis í Evrópusambandinu.

Stronach, sem verður áttræður 6. september næstkomandi, hefur sjálfur aðallega búið í Kanada og tekið þátt í stjórnmálum þar í landi. Dóttir hans hefur hins vegar verið virk í austurrískum stjórnmálum og meðal annars gegnt ráðherraembætti.

Samkvæmt skoðanakönnun Gallup í ágúst mælist nýi flokkurinn með 8% fylgi en hann hefur ekki enn fengið nafn. Búist er við að Stronach muni formlega lýsa yfir stofnun hans síðar í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert