Samkomulag formlega staðfest

Harry Reid, leiðtogi demókrata og meirihlutans í öldungadeild Bandaríkjanna, og Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana og minnihlutans, hafa formlega staðfest að öldungadeildin hafi náð samkomulagi um að hækka skuldaþak ríkissjóðs Bandaríkjanna og koma í veg fyrir greiðslufall.

Þingfundur í öldungadeildinni hófst kl. 16 að íslenskum tíma (12 í Washington). Reid og McConnell greindu þar frá samkomulaginu. 

Þingið hafði frest til morguns til að ná samkomulagi og ljóst er að menn tefldu á tæpasta að. Með samkomulaginu er búið að fjármagna starfsemi ríkisins tímabundið, eða til 15. janúar, og þá hefur skuldaþakið verið hækkað til 7. febrúar, en það stendur nú í 16,7 billjónum dala. 

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, eða neðri deildin, þarf einnig að samþykkja frumvarpið, en ekki er búist við frekari fyrirstöðu þar. Talið er að hluti úr þingmanna repbúlikana muni líkt og þingmenn demókrata styðja frumvarpið sem verður svo sent til Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, til staðfestingar. 

Reid sagði að samkomulagið væri sögulegt og nú hefði Bandaríkjaþing tíma til að ná saman um fjárlagafrumvarp til langs tíma. 

„Þjóðin stóð á þröskuldi hörmunga,“ sagði Reid.

McConnell segist sannfærður um að bandarískum stofnunum, sem var lokað í upphafi deilunnar, muni nú opna á ný og að með frumvarpinu, sem hann vann að ásamt Reid, verði komið í veg fyrir greiðslufall ríkissjóðs Bandaríkjanna. 

„Nú er tímabært fyrir repbúlikana að standa sameinaðir á bak við önnur mikilvæg markmið,“ sagði hann ennfremur. 

AFP
Harry Reid er leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni.
Harry Reid er leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni. AFP
Mitch McConnell er leiðtogi minnihlutans í öldungadeildinni.
Mitch McConnell er leiðtogi minnihlutans í öldungadeildinni. AFP
Hér sjást ríkisstarfsmenn mótmæla í Washington, en margir hafa verið …
Hér sjást ríkisstarfsmenn mótmæla í Washington, en margir hafa verið án launa eftir að mörgum stofnunum var lokað í kjölfar deilunnar. AFP
mbl.is