Útilokað að Obama hafi ekkert vitað

Fyrrverandi starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar trúa því ekki fyrir fimmaur að Barack Obama hafi ekki vitað  af því að Þjóðaröryggisstofnunin (NSA) hafi hlerað síma Angelu Merkel og annarra þjóðarleiðtoga.

Allir æðstu menn stjórnkerfisins sverja af sér vitneskju um njósnirnar en tímaritið Foreign Policy hefur eftir fyrrverandi ráðgjöfum Hvíta hússins og leyniþjónustustarfsmönnum að afsakanir þeirra séu hlægilegar.

Bandaríkjaforseti er æðsti yfirmaður NSA en bæði hann og þingmenn sem eiga að hafa yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar segjast ekkert hafa vitað um njósnir gagnvart fjölda þjóðarleiðtoga vinaríkja Bandaríkjanna.

Fyrst og fremst upplýstur um þjóðaröryggi

Samkvæmt Foreign Policy þarf NSA ekki samþykki forsetans fyrir því hvaða viðfangsefni verði fyrir valinu eða hvaða aðferðum beitt við njósnir. Hann fær daglegar tilkynningar um gang mála frá leyniþjónustunni en þar er aðaláhersla lögð á hugsanlega ógn við öryggi Bandaríkjanna, t.d. grunsemdir um hryðjuverk eða gang mála hjá kjarnorkuáætlun Írans.

Fyrrverandi starfsmaður Hvíta hússins, sem ekki kemur fram undir nafni, segir þó í samtali við Foreign Policy að það sé í raun útilokað að forsetinn hafi ekki vitað af því ef bandarískar stofnanir njósni skipulega um þjóðarleiðtoga, þar sem markmiðið hafi verið að halda forsetanum upplýstum um diplómatísk samskipti.

Hann segir að hafi Obama fengið einhverjar upplýsingar sem sóttar hafi verið í einkasamtöl annarra þjóðarleiðtoga þá ætti hann að hafa áttað sig á uppruna þeirra.

Þá segist hann ekki trúa því að starfsfólk NSA hafi ekki haldið forsetanum upplýstum og hvers þeir urðu vísari með hlerununum, og hafi hann ekki fengið að vita uppruna upplýsinganna hljóti það að teljast vanræksla og brottrekstrarsök.

Talar regluleg við og hittir Merkel

Mike Rogers, formaður þingnefndar um leyniþjónustu Bandaríkjanna, sagði í gær að NSA hafi sagt nefndarmönnum frá aðgerðum sem beindust að allt að 35 þjóðarleiðtogum. Rogers sagði jafnframt að ef kollegar hans í nefndinni þættust ekki vita af því þessu þá hafi þeir ekki verið að fylgjast með.

Þingnefndin er að sögn Rogers afar vel upplýst um njósnastarfsemi Bandaríkjanna, þar á meðal um aðgerðir sem fengið hafi sérstakt samþykki af hálfu forsetans. Þá hafi þingmenn í nefndinni aðgang að upplýsingum um þær aðferðir sem beitt er við njósnirnar.

Foreign Policy hefur sömuleiðis eftir ónefndum fyrrverandi embættismönnum innan leyniþjónustunnar að þeir efist um að Obama hafi ekki a.m.k. haf einhverja hugmynd um að fylgst væri með samskiptum Merkel og annarra þjóðarleiðtoga, jafnvel þótt hann hafi ekki þekkt smáatriðin.

Annar fyrrverandi embættismaður segir að Obama hafi ekki tíma til að fá útdrátt um hverja einustu hlið njósnastarfsemi NSA. „En hann talar við og hittir Merkel reglulega. Það er útilokað að áður en hann hringir í hana, t.d. í aðdraganda G8 fundar, að hann spyrji þá ekki ráðgjafa sinn í öryggismálum hvað sé að frétta af Merkel.“

Sjá umfjöllun Foreign Policy

mbl.is

Bloggað um fréttina

Nokkrar notaðar saumavélar til sölu !!
Nokkrar tegundir, ýmsar gerðir. Allar ástandsskoðaðar og prófaðar af fagmanni. V...
Bílalyftur vökva-drifnar gæðalyftur
EAE Bílalyftur allar gerðir í boði, skoðið úrvalið á www,holt1.is og facebook...
Vantar þig kisu?
Vantar þig kisu? Hérna er úrval katta í heimilisleit;https://www.kattholt.is/kis...
Til sölu Lundia hillur
Um 33 lengdarmetrar, 5 einingar, af þessum frábæru bókahillum til sölu. Lökkuð g...