Leita uppi lesbíur og vændiskonur

Hópur sérsveitarmanna vinnur við það í nígerísku borginni Kano að elta uppi vændiskonur, lesbíur, transfólk, eiturlyfjafíkla og fleiri sem talið er að brjóti gegn saríalögum.

Á eftirlitsferð þeirra um borgina leita þeir einnig upp fólk sem þeir telja að klæði sig ekki nægjanlega siðsamlega. Jafnvel hárgreiðsla í vestrænum stíl fellur þeim ekki í geð enda sé þetta andsnúið íslömskum lögum, saría-lögum.

Adamu Haruna Bayero, sem stýrir eftirlitinu, segir að þegar þeir fá ábendingar, annað hvort frá leyniþjónustunni eða almenningi, um ósiðlegt athæfi eru menn sendir út af örkinni til þess að kanna málið og handtaka viðkomandi.

Undanfarnar vikur hafa hundruð verið handtekin af sveitunum í Kano að tilskipun stjórnvalda um að hreinsa svæðið af óæskilegu fólki og starfsemi.

Alls voru níu þúsund siðgæðislöggur ráðnar til starfa árið 2001 í Kano en margir þeirra vinna við önnur verkefni í dag.

Bayero segir að víða sé pottur brotinn varðandi siðgæðisvitund fólk. Til að mynda gangi unga fólkið í allt of þröngum buxum og í sumum tilvikum ná þær varla upp á mjaðmir viðkomandi.

Nefnt er sem dæmi að fólk sé með hárið klippt líkt og þekktir knattspyrnumenn, svo sem Mario Balotelli og Zinedine Zidane.

mbl.is

Bloggað um fréttina