Ræðir lögreglan við Murdoch?

Stjórnarformaður og helsti eigandi fjölmiðalfyrirtækisins News Corporation, Rupert Murdoch, er í Lundúnum og hafa breskir fjölmiðlar birt fréttir af því að lögreglan vilji ræða við hann í tengslum við hlerunarmálið.

Murdoch, sem er 83 ára að aldri, býr í Bandaríkjunum en flaug til Lundúna eftir að fyrrverandi ritstjóri News of the World, Andy Coulson, var dæmdur sekur um að hafa skipulagt símahleranir þegar hann var ritstjóri blaðsins.

Skömmu eftir að Coulson hætti hjá sunnudagsblaðinu var hann ráðinn yfirmaður upplýsingamála hjá forsætisráðherra Bretlands, David Cameron.

Talsmaður Murdochs neitar að tjá sig um áætlanir Murdochs á meðan hann dvelur í höfuðborg Bretlands en samkvæmt Guardian hefur lögreglan óskað eftir því að fá að ræða við hann í tengslum við hlerunarmálið sem skók Bretland sumarið 2011. 

News Corp. hætti útgáfu News of the World sumarið 2011 þegar upplýst var um að blaðið hefði hlerað síma og eytt upptökum úr síma stúlku sem leitað var. Meðal fjölmiðla í eigu News í Bretlandi eru The Sun og The Times.

„Við upplýsum aldrei um ferðir helstu stjórnenda,“ segir talsmaður News UK, dótturfélags Murdochs í Bretlandi í viðtali við AFP fréttastofuna.

Ekið var með Murdoch af aðsetri sínu í Mayfair hverfinu í Lundúnum í morgun og sást hann lesa The Sun í aftursæti bifreiðarinnar.

Murdoch hefur ekki enn tjáð sig um niðurstaða réttarhaldanna sem stóðu yfir í átta mánuði og lauk í fyrradag. Coulson var eins og áður sagði fundinn sekur en annar fyrrverandi ritstjóri og fyrrverandi framkvæmdastjóri News UK,  Rebekah Brooks, var sýknuð. Murdoch studdi dyggilega við bakið á Brooks þegar hún var handtekin árið 2011 í tengslum við rannsókn málsins.

mbl.is