„Dáin“ hjörtu grædd í fólk

Notast er við hjörtu sem hafa hætt að slá, þau ...
Notast er við hjörtu sem hafa hætt að slá, þau endurlífguð og grædd í fólk. Wikipedia

Skurðlæknar í Ástralíu hafa framkvæmt fyrstu hjartaígræðslurnar þar sem notast er við „dáin“ hjörtu. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu.

Í hjartaígræðslum er venjulega notast við hjörtu úr fólki sem hefur verið lýst heiladautt en er ennþá með hjarta sem slær. Teymi á St Vincent's spítalanum í Sydney notaðist hins vegar við hjörtu sem höfðu hætt að slá, endurlífgaði þau og græddi í fólk.

Tæknin sem notuð er í gengur út á það að taka hjarta sem hefur hætt að slá og endurlífga það í vél sem kallast „hjarta-í-boxi,“ (e. heart-in-a-box). Hjartanu er haldið heitu, hjartslátturinn er endurræstur og nærandi vökvi hjálpar til við að draga úr skaða á hjartavöðvanum.

Michelle Gribilas, fyrsti sjúklingurinn sem fékk ígrætt „dáið“ hjarta, sagðist líða eins og hún væri 10 árum yngri, og nú væri hún „önnur manneskja.“ Gribilas, sem er 57 ára gömul, átti við meðfæddan hjartagalla að stríða, en hún fékk nýtt hjarta fyrir rúmum tveimur mánuðum. „Ég er algjörlega ný manneskja. Mér líður eins og ég sé 40 ára - ég er mjög heppin.“

Síðan þá hafa verið gerðar tvær sambærilegar aðgerðir til viðbótar.

Gæti bjargað 30% fleiri lífum

„Þessi bylting er stórt skref í áttina að því að draga úr skorti á líffæragjöfum,“ sagði Peter MacDonald, yfirlæknir á hjartadeild St Vincent's spítalans.

Talið er að aðferðin geti bjargað allt að 30% fleiri lífum með því að auka fjölda tiltækra líffæra. Byltingunni hefur verið vel tekið um allan heim, og hefur British Heart Foundation lýst henni sem „verulegri þróun.“

Maureen Talbot, hjúkrunarfræðingur hjá stofnuninni, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið: „Það er dásamlegt að sjá þetta fólk jafna sig svona vel eftir hjartaígræðsluna, en án þessarar þróunar gætu þau enn verið að bíða eftir hjarta.“

mbl.is
EAE Bilalyftur
Bílalyftur allar gerðir, eigum á lager 4 tonna 2 pósta og 3 t í gólf og 1 metra ...
ANDLITSBAÐ Á KR.7500 TIL JÓLA
Gefðu andliti þinu næringu í roki og rigningu kulda eða öðru sem á því mæðir. ...
Sólarsella til sölu.
2 sölarsellur til sölu, stór og minni ásamt slatta af ljósum og öryggisboxi. ve...
Pallhýsi frá Travel Lite
Ferð með pallhýsi Nú er besti tíminn til að panta hús frá USA Verðið best, at...