Vaknaði í líkpoka og bað um te

AFP

Kona reis upp frá dauðum í líkhúsi í austurhluta Póllands í dag, ellefu klukkustundum eftir að hún hafði verið úrskurðuð látin á heimili sínu. Starfsmönnum líkhússins brá ekki lítið þegar Janina Kolkiewicz, 91 árs, vaknaði í líkpoka í köldu herbergi í líkhúsinu og þá kom upprisa hennar lækninum sem úrskurðaði hana látna ekki síður á óvart.

„Ég var viss um að hún væri látin,“ sagði Dr. Wieslawa Czyz í samtali við ríkisfjölmiðilinn TVP. „Ég er í sjokki, ég skil ekki hvað gerðist. Hjarta hennar hafði hætt að slá, hún andaði ekki lengur,“ sagði hún.

„Frænku mína grunaði ekki hvað var að gerast þar sem hún er með langt komna heilabilun,“ sagði Bogumila Kolkiewicz, einn ættingja konunnar. „Þegar við komum með hana heim sagðist hún vera að frjósa og bað um heitan bolla af te.“

Lögregla hefur hafið rannsókn á málinu.

mbl.is