Stórsigur Iohannis

Forsætisráðherra Rúmeníu, jafnaðarmaðurinn Victor Ponta, viðurkenndi í gær mikinn ósigur sinn í seinni umferð forsetakosninganna á sunnudag en keppinautur hans, Klaus Iohannis, hlaut um 55% atkvæða. Iohannis, sem er 55 ára og borgarstjóri í Sibiu í Transylvaníu, heitir að berjast gegn spillingu og efla sjálfstæði réttarkerfisins.

Athygli vekur að miðju-hægrimaðurinn Iohannis er úr fámennu þýsku þjóðarbroti í landinu, andstæðingar hans hafa reynt að nota það gegn honum, sagt að hann sé ekki raunverulegur Rúmeni. Sambúð þjóðarbrota, einkum Ungverja og Þjóðverja, við rúmenskumælandi meirihlutann er oft stirð.

Kjörsókn var um 64%, liðlega 18 milljónir voru á kjörskrá. Um þrjár milljónir Rúmena búa utan landsteinanna. Efnt var til mótmæla í París, London, Brussel og víðar vegna þess að miklar biðraðir mynduðust við þá fáu kjörstaði sem voru til reiðu fyrir rúmenska kjósendur í þessum borgum í fyrri umferðinni. Stjórnvöld í Búkarest neituðu samt að fjölga kjörstöðum.

Er talið að nær 400 þúsund atkvæði Rúmena erlendis geti hafa ráðið úrslitum en margir þeirra eru sagðir hafa orðið fyrir vonbrigðum með hinn 42 ára gamla Ponta. Hann segist ekki ætla að segja af sér sem forsætisráðherra þrátt fyrir úrslitin. En ósigur hans gæti grafið undan samstarfi ríkisstjórnarflokkanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »