Beittu táragasi á mótmælendur

Það sló í brýnu milli mótmælenda og lögreglu í norðurhluta Kaliforníu í nótt en fjölmargir hafa tekið þátt í mótmælum í Bandaríkjum þar sem ákveðið var að ákæra ekki hvítan lögreglumann sem kæfði svartan, sex barna föður, Eric Garner, 17. júlí. 

Samkvæmt frétt Reuters köstuðu mótmælendur drasli í lögreglu sem svaraði með táragasi.  Alls tóku 750 þátt í mótmælum í háskólabænum Berkeley í gærkvöldi. Nokkrir voru handteknir í nótt en mótmælendur halda því fram að lögregla hafi skotið gúmmíkúlum að þeim en það hefur ekki fengist staðfest.

Slagorð mótmælenda:  „Ég get ekki andað“, vísar til orða Garners sem endurtók þau hvað eftir annað þar sem lögregla yfirbugaði hann og hélt á jörðinni þegar hann var handtekinn í júlí fyrir að selja sígarettur án skatts. Myndband af handtökunni hefur verið sýnt hvað eftir annað í sjónvarpi. Dánarorsök Garners, sem var astmasjúklingur, var sagt hjartaáfall.

Nýverið ákvað kviðdómur í Missouri að ákæra ekki lögreglumann sem skaut svartan ungling, Michael Brown, til bana í Ferguson, útborg St. Louis. Sú ákvörðun vakti hörð viðbrögð og mótmæli.

Bæði Garner og Brown voru óvopnaðir, en málin eru ólík. Brown veittist að lögreglumanninum sem skaut hann, en Garner var haldið.

22. nóvember skaut lögregla 12 ára svartan dreng, Tamir Rice, til bana á leikvelli í Cleveland. Lögreglan brást við útkalli vegna ungmennis með byssu á lofti. Í ljós kom að drengurinn var með leikfangabyssu og lögreglan hóf að skjóta nokkrum sekúndum eftir að hún kom á vettvang.

Á fimmtudag kom út skýrsla sem bandaríska dómsmálaráðuneytið byrjaði að vinna að fyrir einu og hálfu ári. Þar segir að lögreglan í Cleveland beiti kerfisbundið „of miklu valdi“.

Frá Berkeley í nótt
Frá Berkeley í nótt AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert