Flak þotunnar komið til Hollands

Bílalestin sem flytur flak vélarinnar er nú komin til Hollands.
Bílalestin sem flytur flak vélarinnar er nú komin til Hollands. AFP

Bílalest með flak malasísku farþegaþotunnar sem hrapaði í Úkraínu í sumar kom til Hollands í dag. Þar verður flakið sett saman og ítarleg rannsókn gerð á orsökum slyssins.

Átta flutningabílar fluttu flak vélarinnar frá Úkraínu og til Hollands. Lokaáfangastaður flaksins er herstöð í suðurhluta Hollands. Þangað mun bílalestin koma um kl. 13 í dag. 

Vélin var skotin niður er hún var á flugi yfir austurhluta Úkraínu hinn 17. júlí. Allir sem voru um borð, 298 manns, létust. Flestir voru hollenskir ríkisborgarar.

Úkraína og vesturríkin hafa sakað Rússa um að bera ábyrgð á slysinu og segja þá hafa útvegað uppreisnarmönnum í austurhluta Úkraínu vopn. 

Ættingjar þeirra sem fórust geta skoðað flak vélarinnar áður en það verður sett inn í byggingu á herstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert