Sumir fulltrúar fóru yfir strikið

Yfirmaður CIA, John Brennan, viðurkenndi í dag að sumir þeirra sem framkvæmdu yfirheyrslur fyrir Bandaríkin síðastliðinn áratug hefðu notað óheimilaðar og andstyggilegar aðferðir, og sagðist trúa því að pyndingar ættu til að gefa af sér ósannar upplýsingar.

Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum leyniþjónustunnar í Langley, sem talinn er sá fyrsti í sögu CIA, tók Brennan til varnar fyrir undirmenn sína, og sagði að yfirgnæfandi meirihluti þeirra færi ekki illa með fanga stofnunarinnar. Hann gekkst þó við því að sumir þeirra hefðu seilst lengra en fyrirskipanir heimiluðu og misþyrmt einstaklingum í haldi.

Brennan sagði að pyndingarnar hefðu komið til samfara áhyggjum af annarri öldu ofbeldis af hendi Al Kaída í kjölfar árásanna 11. september 2011, þegar leyniþjónustan reyndi hvað hún gat að takast á við verkefni sem hún hafði enga reynslu af.

„Við vorum ekki undirbúin,“ sagði hann, um þá ákvörðun George W. Bush að heimila harkalegri yfirheyrsluaðferðir, sem nú hafa verið fordæmdar sem pyndingar. Barack Obama felldi umrædda heimild úr gildi árið 2009.

„Í takmörkuðum fjölda tilfella, beittu fulltrúarnir yfirheyrsluaðferðum sem höfðu ekki verið heimilaðar, voru andstyggilegar og allir ættu réttilega að hafna,“ sagði Brennan.

Stjórnmálamenn og fleiri deila nú um það hvort ákvörðun Bush átti rétt á sér en Brennan sagði ómögulegt að vita hvort yfirheyrsluaðferðirnar hefðu gefið af sér gagnlegar upplýsingar.

„Ég hneigist til þess að trúa að beiting þvingandi aðferða sé afar líklegt til að skila sér í röngum upplýsingum,“ sagði hann.

Brennan sagði að upplýsingarnar sem fengust hjá föngum CIA hefðu vissulega komið að gagni við leitina að Osama bin Laden, en ómögulegt væri að segja hvort nauðsynlegt hefði verið að beita harkalegri aðferðum en venjulega.

„Það er engin leið til að vita hvort upplýsingar sem fengust hjá einstaklingi sem hafði verið beittur aðferðunum á einhverjum tíma á meðan hann var í haldi hefðu fengist með öðrum leiðum,“ sagði hann.

Hann neitaði að svara því hvort umræddar aðferðir jafngiltu pyndingum en sagði að CIA kæmi ekki lengur að því að fanga fólk og yfirheyra grunaða. Þá hefði verið ráðist í úrbætur til að tryggja að misbeiting af þessu tagi endurtæki sig ekki.

Hann sagði mál til komið að horfa fram á veginn en gagnrýndi jafnframt nýútkomna skýrslu þingnefndar öldungadeildarinnar um aðgerðir CIA, þar sem stofnunin er harðlega gagnrýnd og m.a. sökuð um að blekkt stjórnvöld og almenning hvað varðaði umfang og árangur yfirheyrsluaðferða sinna.

Á meðan blaðamannafundinum stóð svaraði Dianne Feinstein, formaður þingnefndarinnar, Brennan jafnharðan á Twitter og benti m.a. á að hin 500-blaðsíðna samantekt sem birt var í vikunni, væri aðeins brot af hinni 6.700 blaðsíðna skýrslu, og hafnaði þeirri ásökun að nefndin hefði valið skaðvænlegasta efnið til birtingar.

Yfirmaður CIA, John Brennan, gekkst við því að einhverjir fulltrúa …
Yfirmaður CIA, John Brennan, gekkst við því að einhverjir fulltrúa leyniþjónustunnar hefðu gengið of langt, en vildi ekki svara því hvort aðferðirnar sem þeir beittu jafngiltu pyndingum. AFP
Formaður þingnefndarinnar, Dianne Feinstein, notaði Twitter til að svara Brennan …
Formaður þingnefndarinnar, Dianne Feinstein, notaði Twitter til að svara Brennan á meðan blaðamannafundinum stóð. AFP
Blaðamannafundurinn fór fram í höfuðstöðvum CIA í Langley.
Blaðamannafundurinn fór fram í höfuðstöðvum CIA í Langley. AFP
mbl.is