Var boðin sem gjöf við samningsgerð

Dominique Strauss-Kahn
Dominique Strauss-Kahn AFP

Réttarhöld yfir fyrrverandi forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, og nokkrum kaupsýslumönnum í tengslum við vændishring hefjast í Lille í Frakklandi í dag. Málið hefur varpað ljósi á heim sem flestum er hulinn, heim þar sem kynlíf er oft notað til þess að tryggja viðskiptasamninga.

„Ég var talin ákaflega mikilvæg manneskja (VIP) og boðin sem gjöf til yfirmanna fyrirtækja og stjórnmálamanna,“ segir Carole, 41 árs fyrrverandi vændiskona, í viðtali sem var tekið skömmu áður en réttarhöldin hófust.

Carole starfaði á kampavínsbörum og vændishúsum í Belgíu en þar var vændi heimilt með lögum allt til ársins 2013.

Alls eru fjórtán ákærðir fyrir aðild að vændismálinu. „Fyrirtæki, stundum stór alþjóðleg fyrirtæki, komu til okkar og óskuðu eftir að fá stúlkur sem hægt væri að bjóða sem gjöf,“ segir Carole en fjölmargir stjórnmálamenn, lögreglumenn og kaupsýslumenn nýttu sér starfsemi vændishringsins. 

Carole nefnir bílafyrirtæki sem var að reyna að ná samningi um sölu á þremur flutningabílum. „Ég varð að gera hvað sem var til þess að tryggja að hann skrifaði undir.“

Að hennar sögn var hún oft send á hótel þar sem viðkomandi gistu og látin reyna að táldraga þá. Með því væri hægt að hóta þeim að ljóstrað yrði upp um þá ef þeir skrifuðu ekki undir samninga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert