Ganga í sjóði opinberra stofnana

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Gríska þingið tók í dag mjög umdeilda ákvörðun þess efnis að kalla inn allt lausafé úr sjóðum ríkisstofnana landsins. Tillagan var samþykkt af stjórnarflokknum Syriza og samstarfsflokknum ANEL með 156 atkvæðum gegn 104 eftir miklar umræður á þinginu.

Ríkisstjórnin segir að fjármagnið úr sjóðum opinberu stofnananna verði notað fyrir „brýnar þarfir ríkisins“ en Grikkland þarf fljótlega að standa í skilum á 7,2 milljarða evra neyðarláni til lánardrottna landsins.

Ákvörðunin féll í mjög svo grýttan jarðveg meðal stjórnenda opinberra stofnana í landinu en um 1.400 opinberar stofnanir, þar á meðal spítalar og háskólar, verða að afhenda allt lausafé úr sínum sjóðum til ríkisins.

Þetta örþrifaráð grískra yfirvalda undirstrikar bága fjárhagsstöðu landsins og eykur líkurnar á að Grikklandi takist ekki að standa í skilum til lánardrottna landsins, mögulega með þeim afleiðingum að Grikkland hverfi úr Evrópusambandinu.

Ríkisstjórn landsins áætlar að með þessum aðgerðum safnist um einn og hálfur milljarður evra en fjölmiðlar í landinu segja upphæðina vera nær 400 milljónum evra.

Sveitarstjórnarmenn í landinu hafa látið í sér heyra vegna ákvörðunarinnar og hafa þeir varað við því að þessi „árás“ á þeirra sjóði gæti orðið til þess að skerða þjónustu við borgara.

„Þetta er ósanngjarnt og það er óásættanlegt að ríkið ætli sér að stjórna sjóðum sveitarfélaga," sagði Giorgos Patoulis, formaður Sambands grískra sveitarfélaga.

mbl.is