Vatn á Mars „stefnumál vinstrisinna“

Vísindamenn NASA telja að í fyrndinni hafi verið meira vatn …
Vísindamenn NASA telja að í fyrndinni hafi verið meira vatn á Mars en í Norðuríshafinu á jörðinni. Síðan þá hafi reikistjarnan tapað um 87% af vatninu út í geiminn. NASA/GSFC

Ekki eru allir jafnhrifnir af tilkynningu vísindamanna NASA í gær um að merki um rennandi vatn hafi fundist á Mars. Íhaldssami stjórnmálaskýrandinn og útvarpsmaðurinn Rush Limbaugh segir að fréttirnar verði notaðar til framgangs stefnumála vinstrimanna, líklega í tengslum við loftslagsbreytingar.

Þrátt fyrir að vísindasamfélagið hafi talað svo gott sem einum rómi um að þær loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað á jörðinni séu af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum berjast margir bandarískir íhaldsmenn hatrammlega gegn þeirri hugmynd og vefengja vísindin að baki við hvert tækifæri.

Limbaugh er einn þeirra og hann er sannfærður um að fréttirnar um fljótandi vatn á Mars séu hugsaðar til að styðja málsstað vinstrimanna enda hafi geimvísindastofnuninni NASA verið „ spillt“ af núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna.

Vísindamenn telja að loftslags Mars hafi verið mun líkara jörðinni í fortíðinni og haf hafi þakið stóran hluta yfirborðsins. Því er ljóst að afdrifaríkar loftslagsbreytingar hafa átt sér stað á rauðu reikistjörnunni.

Það virðist vera þessi tenging sem hafi sett hjól samsæriskenninga af stað í höfði útvarpsmannsins. Hann sagðist ekki vita nákvæmlega hvaða stefnumáli vinstrimanna tilkynning NASA myndi þjóna en hann gengi að því sem vísu að það hefði eitthvað með loftslagsbreytingar að gera.

„Við erum að glíma við örvæntingafulla vinstrisinna hérna sem munu gera hvað sem er til þess að ná fram stefnumálum sínum hér á jörðinni,“ sagði Limbaugh við hlustanda sem hringdi inn í þáttinn.

Frétt Politico af orðum Limbaugh

mbl.is