Stúlkur látnar ganga á milli nauðgara

Ali, Bannaras, Basharat, Davies, Arshid og MacGregor
Ali, Bannaras, Basharat, Davies, Arshid og MacGregor Skjáskot af Sky

Þrír menn og tvær konur hafa verið dæmd sek um fjölmörg kynferðisbrot gegn ungum stúlkum í breska bænum Rotherham. Einn annar aðili hafði þegar játað brot sín en tveir voru sýknaðir í dag.

Meðlimum gengis sem leitt er af bræðrunum Arshid, Basharat og Bannaras Hussain sem eru yfirleitt kallaðir Mad Ash, Bash og Bono, var stefnt 51 sinni og ákærðir fyrir rúmlega 70 brot. Brotin voru framin á tólf unglingsstúlkum á árunum 1987 til 2003.

Fórnarlömbunum var m.a. nauðgað, þau misnotuð kynferðislega og neydd til þess að stunda vændi.

Fyrrnefndum bræðrum hefur verið lýst sem ofbeldisfullum og skotglöðum eiturlyfjasölum sem virtust „eiga“ Rotherham.

Árið 2014 kom í ljós að allt að brotið hafði verið kynferðsilega á að minnsta kosti 1.400 börn­um í Rot­her­ham á árunum 1997 til 2003. Í skýrslu sem var þá gefin út kom fram að talið væri að borg­ar­ráð og lög­regl­a hafi vitað um brot­in án þess að aðhaf­ast nokkuð. Það er því ljóst að fórnarlömb þeirra sem dæmd voru í dag er aðeins örlítill hópur þeirra sem brotið var á í bænum. 

Við réttarhöldin báru fórnarlömb gengisins vitni en stúlkurnar voru m.a. látnar ganga á milli manna sem nauðguðu þeim og börðu þær.

Saksóknarinn Michelle Colborne sagði við réttarhöldin að þar að auki hafi fórnarlömbin verið lokuð inni og hótað lífláti.

Eitt fórnarlamb lýsti því hvernig hún hélt að hún myndi deyja þegar að hendur hennar og fætur voru bundin saman og bensíni helt yfir hana. Annað fórnarlamb sagðist hafa verið misnotuð frá ellefu ára aldri og látin ganga milli manna til þess að borga upp í skuldir Arshid Hussain, sem var leiðtogi gengisins.

Einni stúlku var sagt af Basharat Hussain að grafa sína eigin gröf á meðan hann hélt henni í tvær klukkustundir og beitti hana andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Arshid og Basharat Hussain voru dæmdir sekir um fjölmargar nauðganir og árásir. Yngri bróðir þeirra, Bannaras Hussain, viðurkenndi brot sín sem samanstóðu m.a. af tíu nauðgunum, við upphaf réttarhaldanna. Þá var Qurban Ali fundinn sekur um að hafa skipulagt nauðganir.

Karen MacGregor og Shelley Davies voru dæmdar sekar um að hafa skipulagt vændi og haldið stúlkum gegn vilja þeirra.

MacGregor, hefur verið lýst sem „móðurímynd“ í réttarhöldunum en hún á að hafa blekkt unglingsstúlkur til þess að yfirgefa heimili sín og lofaði þeim stuðningi og öryggi.

„Þetta var eins og ævintýrið um Hans og Grétu,“ sagði eitt fórnarlambið. „Þetta var allt frábært fyrst en varð síðan alveg hræðilegt.“

Dómur yfir þeim seku verður kveðinn upp á föstudaginn.

Frétt Sky News. 

Fyrri frétt mbl.is: Brotið kyn­ferðis­lega gegn 1.400 börn­um árum sam­an

Fyrri frétt mbl.is: Nauðgað vikulega í þrjú ár

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert