Biden skrifar fórnarlambinu

Joe Biden.
Joe Biden. AFP

Varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur skrifað opið bréf til konunnar sem var nauðgað á lóð Stanford-háskóla. Hann sendi bréfið til síðunnar BuzzFeed en í því dáist hann að konunni fyrir að deila frásögn sinni með almenningi.

Brock Turner, sem var einn efnilegasti sundkappi skólans, var dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa beitt konuna, sem var rænulaus, kynferðislegu ofbeldi. Fórnarlambið, sem er 23 ára í dag, hefur ekki komið fram undir nafni opinberlega.

Hún tjáði sig í réttarsal síðastliðinn fimmtudag og fór með samantekt sem taldi tólf blaðsíður. Um var að ræða yfirlýsingu sem hún lagði fyrir dómarann en þar fjallaði hún meðal annars um rannsókn málsins.

Milljónir manna hafa lesið yfirlýsingu konunnar á síðunni BuzzFeed. Í bréfi sínu segist Biden „vera fullur reiði“ vegna brots mannsins.

„Þetta hlýtur að hafa verið mikil raun, að endurupplifa það sem hann gerði þér. En þú gerðir það samt sem áður, í von um að styrkur þinn kæmi í veg fyrir að brotið yrði á öðrum á sambærilegan hátt,“ skrifar Biden.

Frétt mbl.is: Blaut tuska í andlit þolenda

mbl.is