Vilja senda ólöglega hælisleitendur til baka

Fjögurra manna tyrknesk fjölskylda á leið yfir landamærin til Kanada. …
Fjögurra manna tyrknesk fjölskylda á leið yfir landamærin til Kanada. Margir sem flúið hafa yfir til Kanada gera það af ótta við að vera vísað úr landi í Bandaríkjunum AFP

Tæpur helmingur Kanadabúa vill senda til baka þá flóttamenn og hælisleitendur sem koma ólöglega yfir landamærin frá Bandaríkjunum. Sami fjöldi er ósáttur við stefnu forsætisráðherrans Justin Trudeau í málefnum flóttamanna samkvæmt nýrri skoðanakönnun Reuters/Ipsos sem birt var í dag.

Fjórir af hverjum tíu aðspurðra töldu Kanada yrði ótryggari staður með komu flóttamannanna.

Straumur hælisleitenda hefur komið frá Bandaríkjunum yfir landamærin til Kanada á undanförnum mánuðum. Málið er orðið að deiluefni í kanadíska þinginu, en mikill fjöldi þeirra, sem flúið hafa yfir til Kanada, gerir það af ótta við að vera vísað úr landi í Bandaríkjunum.

Trudeau undir pressu í þinginu

Áratugum saman hafa innflytjendur notið stuðnings meirihluta Kanadabúa, en stjórn Trudeaus er nú undir pressu vegna straums hælisleitenda og er forsætisráðherrann látinn svara fyrir málið í hvert sinn sem hann kemur í þingið.

Samkvæmt könnun Reuters/Ipsos þá eru 48% aðspurðra hlynnt því að þeir sem búa ólöglega í Kanada verði sendir úr landi. Þegar spurt var sérstaklega um þá sem komið hafa nýlega yfir landamærin frá Bandaríkjunum var sami fjöldi aðspurðra þeirrar skoðunar að senda ætti fólkið aftur til Bandaríkjanna.

36% aðspurða sögðu Kanada eiga að taka á móti hælisleitendunum.

50% Bandaríkjamanna eru hlynnt brottflutningi ólöglegra innflytjenda, samkvæmt skoðanakönnun sem Reuters/Ipsos unnu þar í landi á sama tíma.

Velkomnari þegar við höfum valið þá sjálf

Skoðanakönnunin sýnir mestan stuðning við brottflutning meðal kanadískra karla sem ekki eru með háskólapróf, sem og meðal eldri íbúa og þeirra efnameiri.

„Það eru svo margt fólk í heiminum sem vill koma og sem fer eftir réttum leiðum,“ sagði Greg Janzen, leiðtogi í landamærabyggðum Manitoba þar sem margir hafa komið yfir. „Það fer illa í menn. Þetta fólk er að hoppa yfir landamærin.“

46% aðspurðra telja aukinn straum hælisleitenda ekki draga úr öryggi sínu, en 41% telur hann draga úr öryggi landsmanna.

„Flóttamenn eru meira velkomnir þegar við höfum sjálf valið þá, heldur en þeir sem velja okkur,“ hefur Reuters eftir Janet Dench, framkvæmdastjóra flóttamannahjálpar Kanada.  

46% aðspurðra voru ósátt við það hvernig Trudeau tekur á málinu, 37% voru sátt við aðgerðir forsætisráðherrans og 17% sögðust ekki vita það. Í sambærilegri könnun sem Ipsos framkvæmdi í janúar sl. þá voru 59% sátt við forsetann en 41% ósátt.

mbl.is