2 handteknir og 5 í yfirheyrslum

Chris Bevington hét Bretinn sem lést í árásinni í miðborg …
Chris Bevington hét Bretinn sem lést í árásinni í miðborg Stokkhólms. Ljósmynd/Breska utanríkisráðuneytið

Búið er að nafngreina Bretann sem lést í árásinni í miðbæ Stokkhólms á föstudag. Hann hét Chris Bevington og var 39 ára. Belgísk kona lést einnig í árásinni og tveir Svíar og var annar þeirra 11 ára gömul stúlka sem var á leið heim úr skóla er flutningabíllinn keyrði á hana.

„Við erum miður okkar yfir að okkar hæfileikaríki og umhyggjusami sonur Chris hafi dáið með þessum hætti,“ sagði í yfirlýsingu frá föður hans John Bevington, sem kvað fjölskylduna nú þurfa frið til að syrgja.

Árásarmaðurinn hefur verið í haldi lögreglu frá því á föstudag, en í dag greindi sænska lögreglan frá því að annar maður hafi verið handtekinn í tengslum við rannsókn málsins og segja sænskir fjölmiðlar handtökuskipunina gefna út vegna gruns um morð við hryðjuverk.

Áður hafði lögregla sagt frá því að árásarmanninum, 39 ára Úsbeka, hefði síðasta sumar verið synjað um dvalarleyfi í landinu og að reynt hefði verið að vísa honum úr landi. Hann dvaldi hins vegar þá ekki lengur á heimilisfanginu sem sænska útlendingastofnunin var með hann skráðan á.

Lög­regla sagði fimm manns þá enn sæta yf­ir­heyrsl­um í tengsl­um við rann­sókn máls­ins. Ekki fékkst held­ur upp gefið hvort maður­inn hafi verið sam­starfs­fús við lögreglu við rann­sókn máls­ins. „Við vit­um að hann styður viss öfga­sam­tök, til að mynda hryðju­verka­sam­tök­in Ríki íslams,“ sagði Johan Hys­ing hjá sænsku lögreglunni.

Nú um helgina hefur lögregla með aðstoð sænsku öryggislögreglunnar Säpo tekið yfir 500 skýrslur í tengslum við rannsóknina og gert húsleit á fjölda staða. Þá hefur lögregla einnig undir höndum um 70 stafræn sönnunargögn sem þarfnast frekari rannsókna við.

Þúsundir manna hafa í dag komið saman á Sergels-torgi, en þar var boðað til sérstakrar kærleiksstundar klukkan tvö í dag að sænskum tíma, til að minnast fórnarlamba árásarinnar.

Um 30.000 manns höfðu lýst yfir áhuga á Facebook á að taka þátt og sagði Aftonbladet tugþúsundir vera á staðnum. „Óttinn fær aldrei að sigra,“ sagði Karin Wanngård, sem fer með fjármál í borgarráði Stokkhólms, í ræðu sinni.

„Jafnvel þó að maður þekki ekki alla, þá geta allir sameinast í sorginni,“ hefur Aftonbladet eftir Damon Rasti, skipuleggjanda viðburðarins.

Stokkhólmsbúar komu saman í miðborginni til að minnast fórnarlamba árásarinnar.
Stokkhólmsbúar komu saman í miðborginni til að minnast fórnarlamba árásarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert