Staðfesta að sarín-taugagasi var beitt

Mótmæli vegna efnavopnaárásarinnar fóru fram víða, m.a. í Tyrklandi.
Mótmæli vegna efnavopnaárásarinnar fóru fram víða, m.a. í Tyrklandi. AFP

Yfirvöld í Tyrklandi segja að samkvæmt niðurstöðum rannsókna hafi eiturgasið sem beitt var í efnavopnaárás í Sýrlandi í síðustu viku, verið sarín-taugas. 87 létust í árásinni, þar af 31 barn.

„Það hefur verið staðfest að sarín-taugagas var notað,“ sagði Recep Akdag heilbrigðisráðherra Tyrklands í dag. 

Rannsókn var gerð á blóði og þvagi þeirra sem létust í árásinni í Idlib-héraði. Nokkur fórnarlömb árásarinnar voru flutt á sjúkrahús í Tyrklandi. Þrjú þeirra létust þar í landi.

Árásin var gerð úr lofti, að því er næst verður komist, í þorpinu Khan Sheikhun. Flestir telja að ríkisstjórn Bashars al-Assad forseta beri ábyrgð á henni. Meðal þeirra sem kenna Sýrlandsforseta um eru Tyrkir og Bandaríkjamenn. 

Sarín-taugagas getur komist inn í líkamann í gegnum húðina og lamar þann hluta miðtaugakerfisins sem stýrir öndun, m.a. með því að lama vöðva í kringum lungun.

Af myndum sem teknar voru á vettvangi árásarinnar að dæma átti fólkið sem fyrir henni varð mjög erfitt með að anda. Þá seytlaði froða úr munnum þeirra. 

Nokkrum dögum eftir árásina gerðu Bandaríkjamenn loftárásir á herstöð Sýrlandshers. Sex létust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert