Nauðgarinn látinn laus og lét sig hverfa

Suðurafríski kokkurinn Nthabiseng Mabuza, 35 ára, var á leið heim úr vinnu þegar henni var nauðgað af bílstjóra sem ók strætisvagni sem hún var farþegi í. Ofbeldismaðurinn var handtekinn á staðnum eftir að Mabuza hrópaði á hjálp. Vegfarandi sem heyrði í henni náði að stöðva lögreglubíl sem átti leið um og handtók lögreglan bílstjórann en Mabuza var ein í strætisvagninum þegar maðurinn réðst á hana.

Árásarmaðurinn sat í gæsluvarðhaldi í nokkra mánuði en var síðan látinn laus gegn tryggingu. Tveimur árum síðar er ekki enn búið að rétta yfir manninum og nú er sá ákærði horfinn. 

Mabuza, en um dulnefni er að ræða, er orðlaus af undrun og að sama skapi reið í garð lögreglunnar að láta manninn lausan. Hún segist vera óttaslegin um að nauðgarinn sé einhvers staðar á þvælingi í nágrenni hennar.

Mál hennar er enn eitt dæmið um hvernig komið er fram við fórnarlömb nauðgana í Suður-Afríku og þann vanda sem þau þurfa að glíma við. Fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis skipta tugum þúsunda í Suður-Afríku á hverju ári.

„Daginn sem ég átti að bera vitni þá var hann hvergi finnanlegur,“ segir Mabuza. „Síðan þá hefur ekkert gerst,“ bætir hún við þar sem hún ræddi við fréttamann AFP á heimili sínu í Jóhannesarborg. 

Hún og eiginmaður hennar hafa reynt að komast að því hvernig rannsókninni miðar án árangurs. 

„Við verðum að bregðast við“

Ráðherra lögreglumála, Fikile Mbalula, hefur heitið því að taka allt réttarkerfið í gegn og viðurkennir að eitthvað sé að varðandi stjórnsýsluna á lögreglustöðvum landsins.

„Við verðum að bregðast við mótmælum milljónum íbúa um að lögreglan sinni ekki nauðgunarmálum á fullnægjandi hátt,“ segir Mbalula.

Hann segir að innan ráðuneytisins verði farið í að bæta vinnubrögð lögreglunnar og hún sinni þeim verkefnum sem henni er ætlað. 

Eiginmaður Mabuza sýnir fréttamanni AFP myndir af eiginkonu hans eftir nauðgunina, myndir af blóðugum strætisvagninum þar sem henni var nauðgað á hrottalegan hátt, hárflyksum sem nauðgarinn reif af höfuðleðri hennar. 

„Þetta gerðist árið 2015 og nú er árið 2017,“ segir hann. Hjónin eru afar ósátt við að nauðgari sé látinn laus gegn tryggingu þegar nægar sannanir eru fyrir glæpnum.

Mannréttindasamtök, fræðimenn og fjölmiðlar í Suður-Afríku saka lögregluna um að sýna fórnarlömbum nauðgana ekki nægjanlega tillitsemi og að fara sér hægt við rannsóknir á kynferðisbrotum.

Viðtalið við lögregluna erfiðasti hluti nauðgunarinnar

Í innan við 10% tilvika falla dómar í tilkynntum kynferðisofbeldismálum í S-Afríku. Samkvæmt rannsókn sem verið er að birta enduðu aðeins 8,6% nauðgunarmála sem fóru fyrir dómstóla með sakfellingu. Saksóknarar gáfu ekki út ákæru í 47,7% mála sem lögreglan vísaði til þeirra. 

Lu-Meri Kruger er 35 ára gömul og er einnig fórnarlamb nauðgunar. Hún segir að lögreglan hafi spurt mjög erfiðra spurninga. „Aftur og aftur sömu spurningarnar þannig að það endar með því að þér líður eins og þú sért sá seki,“ segir hún og bætir við að það að koma inn á lögreglustöð sé það erfiðasta sem hún hafi gert. „Það er erfiðasti hluti nauðgunarinnar,“ segir Kruger.

„Þú veist ekki hvert þú átt að leita,“ segir Kruger en henni var nauðgað þegar hún var fimmtán ára gömul. Árásarmaðurinn réðst á hana þar sem hún var í sturtu á farfuglaheimili í Höfðaborg.

Í skýrslu um nauðganir í Suður-Afríku kemur fram að lögreglan þar í landi fái ekki nægjanlega þjálfun í því hvernig eigi að koma fram við fórnarlömb nauðgana og á sama tíma glímir lögreglan við allt of mikið álag í starfi. Það hafi þau áhrif að fórnarlömbin fá ekki nægan stuðning og þeim mætir neikvætt andrúmsloft þegar þau leita til lögreglunnar.

Samkvæmt opinberum tölum voru 51.895 nauðganir tilkynntar til lögreglu í Suður-Afríku frá apríl 2015 til mars 2016. Mannréttindasamtök telja að þetta sé aðeins toppurinn á ísjakanum. Nauðganirnar séu margfalt fleiri á hverju ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert