Hvatti til friðar í Jerúsalem

Frans Páfi veifar til almennings á Péturstorgi í morgun.
Frans Páfi veifar til almennings á Péturstorgi í morgun. AFP

Frans páfi hvatti til friðar í Jerúsalem og óskaði eftir gagnkvæmu trausti á Kóreuskaganum í jólaræðu sinni í morgun. Hann lagði áherslu á þjáningar barna í átökum víðsvegar um heiminn.

Í hinu hefðbundna „Urbi et Orbi“-ávarpi frá Péturstorgi talaði Frans um „vaxandi spennu á milli Ísraela og Palestínumanna“ og kvaðst vona að viðræður hefjist þar á nýjan leik. Þannig væri loksins hægt að komast að niðurstöðu svo að ríkin tvö geti búið þar í sátt og samlyndi.

„Við skulum biðja fyrir því að komist verði hjá átökum á Kóreuskaganum og að gagnkvæmt traust aukist þar í þágu allrar heimsbyggðarinnar,“ sagði páfinn.

„Við sjáum Jesús í börnunum í Mið-Austurlöndum sem halda áfram að þjást vegna vaxandi spennu á milli Ísraela og Palestínumanna.“

Spennan fyrir botni Miðjarðarhafs hefur aukist eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. 

Páfinn hvatti stjórnmálamenn til að nýta sér góðan innblástur til að sigrast á þeim hindrunum sem eru á svæðinu þannig að langþráð réttlæti og öryggi verði að veruleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert