Aðskilnaðarsinni kjörinn þingforseti

Aðskilnaðarsinninn Roger Torrent var kjörinn forseti héraðsþingsins í Katalóníu í …
Aðskilnaðarsinninn Roger Torrent var kjörinn forseti héraðsþingsins í Katalóníu í dag. AFP

Aðskilnaðarsinninn Roger Torrent var kjörinn í embætti þingforseta á héraðsþinginu í Katalóníu í dag. Þingið kom sam­an á ný í dag í fyrsta skipti eft­ir að það var leyst upp í haust eftir að kosið var um sjálf­stæði Katalón­íu í október.

Frétt mbl.is: Þing kom saman í Katalóníu í dag

Torrent er þingmaður Vinstrilýðveldisflokks Katalóníu, ERC, og hefur setið á þingi frá 2012. Valið á aðskilnaðarsinna í emætti þingforseta er talið vera fyrsta skrefið í að koma Carles Puigdemont, fyrrverandi forseta heimastjórnar Katalóníu, aftur til valda. Óvíst er hvort það takist, en Puidgemont á yfir höfði sér að verða handtekin, snúi hann aftur til Spánar. Hann hefur dvalið í Belgíu frá því að þingið var leyst upp.

Torrent fékk 65 atkvæði en frambjóðandi flokka sem styðja að Katalónía verði áfram hluti af Spáni fékk 56 atkvæði. Aðskilnaðarsinnar hafa nauman meirihluta á þinginu, 70 sæti af 135

Hópur aðskilnaðarsinna kom saman fyrir utan þinghúsið í Barcelona áður en þingfundurinn hófst í dag. Fólkið veifaði fána Katalóníu og krafðist þess að sjálfstæðisbaráttan myndi halda áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert