Fundu heimilishundinn áratug síðar

Abby er loks komin heim.
Abby er loks komin heim. Skjáskot

Debra Suierveld var orðin sannfærð um að hún myndi aldrei sjá tíkina sína Abby aftur eftir að hún týndist árið 2008. En kraftaverkin gerast og nú er tíkin fundin í um 16 kílómetra fjarlægð frá heimili Debru og fjölskyldu hennar í Apollo í Pennsylvaniu. 

Debra fékk af því fregnir að tíkin, sem er labrador-blanda, hefði fundist. Hún hefði birst á tröppum fólks í bæ skammt frá heimili Debru. 

Sá sem fann Abby lét dýraeftirlitið vita og starfsmaður þess fann örmerki í tíkinni en á það voru skráðar upplýsingar um eigandann.

Abby er auðvitað tíu árum eldri, en hún er við góða heilsu og því ljóst að einhver hefur hugsað vel um hana frá því að hún yfirgaf heimili sitt fyrir áratug. Hún hefur heldur engu gleymt og kann ýmislegt sem Debra kenndi henni á sínum tíma. Henni hafi t.d. verið kennt að leggjast niður og krossleggja framfæturna. Það gerir hún enn þegar hún er beðin um það. 

Dóttir Debru var unglingur er Abby hvarf. Hún er nú orðin 22 ára háskólanemi. „Hún grét af gleði,“ segir móðir hennar um viðbrögð dótturinnar við því að tíkin væri loks fundin.

Frétt CBS um Abby

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert