Enn einn dagur loftárása

Barn sem særðist í loftárásum stjórnarhersins í Austur-Ghouta í gær.
Barn sem særðist í loftárásum stjórnarhersins í Austur-Ghouta í gær. AFP

Loftárásir stjórnarhersins í Sýrlandi héldu áfram í dag í Austur-Ghouta og í þeim féllu að minnsta kosti sjö almennir borgarar. Bæirnir sem árásirnar voru gerðar á eru undir yfirráðum uppreisnarmanna. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem harðar loftárásir eru gerðar á svæðinu. 

Talsmaður mannréttindasamtakanna Syrian Observatory for Human Rights segir að um tuttugu manns hafi særst í árásunum í tveimur bæjum. 

Í gær létust 80 almennir borgarar í árásunum í Austur-Ghouta, þar af nítján börn. 

„Þetta var mesta mannfall almennra borgara í Sýrlandi í tæplega níu mánuði og einn blóðugustu dagarnir í Austur-Ghouta í nokkur ár,“ segir talsmaður mannréttindasamtakanna,  Abdel Rahman.

Um 400 þúsund manns búa í Austur-Ghouta sem hefur verið í herkví mánuðum saman. Fólkið fær ekki mat og ekki nægilega læknisþjónustu. 

Frá því að stríðið í Sýrlandi braust út af fullri hörku í mars árið 2011 hafa yfir 340 þúsund manns fallið og milljónir lagt á flótta. 

Sýrlenskur drengur særður eftir loftárás í bænum Kafr Batna í …
Sýrlenskur drengur særður eftir loftárás í bænum Kafr Batna í Austur-Ghouta. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert