Oxfam-hneykslið „toppurinn á ísjakanum“

Haítí er eitt fátækasta ríki heims. Í jarðskjálftunum miklu fórust ...
Haítí er eitt fátækasta ríki heims. Í jarðskjálftunum miklu fórust yfir 200 þúsund manns og ein og hálf milljón manna misstu heimili sín. Í þessari neyð misnotuðu starfsmenn Oxfam sér stöðu sína. AFP

Þeir kölluðu hýbýli sín á Haítí „hóruhúsið“. Þangað létu þeir einkabílstjóra sína aka konum, mögulega börnum, sem þeir svo misnotuðu kynferðislega. Misnotkunin fólst m.a. í þeirri valdastöðu sem yfirmenn góðgerðarsamtakanna Oxfam voru í á meðan þeir áttu að vera að hjálpa bláfátækri þjóð að byggja upp eyjuna eftir gríðarlega harðan jarðskjálfta sem kostaði hundruð þúsunda lífið. Í stað þess beittu þeir forréttindum sínum; einkabílstjórum, góðum húsum og fjármunum, til að lokka til sín snauða eyjaskeggja. „Þessar stúlkur voru klæddar stuttermabolum merktum Oxfam og hlupu hálfnaktar um húsið, þetta var eins og kynsvall,“ sagði einn heimildarmaður Times of London í grein sem fletti ofan af hneykslismálinu í síðustu viku.

Í greininni var sagt frá því að Oxfam hefði fengið ábendingar um að eitthvað misjafnt væri á seyði meðal helstu yfirmanna samtakanna á Haítí þegar árið 2010. Innanhússrannsókn var gerð og í kjölfarið var sex starfsmönnum sagt upp og þremur boðið að segja upp sjálfir. Þeirra á meðal var landsstjóri Oxfam á Haítí, Roland van Hauwermeiren sem talinn er vera höfuðpaurinn í málinu. Hann er sakaður um að hafa leikið sama leikinn nokkrum árum áður er samtökin voru að störfum í Tjad er hundruð þúsunda fólks flúðu þangað undan átökunum í Súdan. 

En fleira var ekki gert. Og stjórnendur Oxfam í dag neita að þau hafi hylmt yfir verknað mannanna.

Oxfam hafa það hlutverk að styðja við bágstadda á stríðshrjáðum ...
Oxfam hafa það hlutverk að styðja við bágstadda á stríðshrjáðum svæðum og hamfarasvæðum víða um heim. AFP

Í valdastöðu

Widza Bryant vann fyrir Oxfam á Haítí á árunum 2009-2012. Hún segist í samtali við BBC hafa orðið vitni að kynferðislegum samböndum milli heimamanna og yfirmanna samtakanna á staðnum. Hún segir heimamenn hafa sagt sér að sumir starfsmenn samtakanna hafi komið til Haítí undir því yfirskyni að hjálpa en í raun hafi þeir misnotað heimamenn kynferðislega. Starfsmennirnir hefðu verið í allt annarri stöðu en fátækir íbúarnir. Þeir höfðu betri hýbýli og fóru út að borða á fínustu veitingastöðunum á hverjum kvöldi. Þá höfðu þeir einkabílstjóra sem óku þeim allra sinna ferða. Að auki höfðu þeir aðgang að upplýsingum sem aðrir höfðu ekki. Þannig voru þeir í mikilli forréttindastöðu. 

Bryant segir að yfirstjórn samtakanna hafi verið látin vita af því sem var í gangi.

Þrjú brot tilkynnt á einum sólarhring

Annar fyrrverandi yfirmaður Oxfam, Helen Evans, segir að hún hafi ítrekað látið vita af ósæmilegri hegðun starfsmanna samtakanna víða um heim. Hún segist hafa beðið um liðsstyrk til að taka á vandanum. Í viðtali hjá Channel 4 sagðist hún á einum degi hafa fengið ábendu um að kona hefði verið þvinguð til kynlífs af starfsmanni, um að kona hefði verið þvinguð til kynmaka gegn neyðaraðstoð og um að enn ein konan hefði verið beitt kynferðisofbeldi.

Hún segir að sjálfboðaliða, allt niður í fjórtán ára gamla, hafi kvartað undan kynferðislegri áreitni og í að minnsta kosti einu tilviki hafi fullorðinn sjálfboðaliði brotið gegn sjálfboðaliða á barnsaldri. Á árunum 2012-2014 hafi tólf athugasemdir sem þessar borist. Evans segist hafa látið fjölmarga vita af ástandinu; yfirstjórn Oxfam, nefnd sem hefur eftirlit með góðgerðarsamtökum sem og bresk stjórnvöld. Ekkert hafi verið gert í málinu.

Um 200 manns voru að störfum við Oxfam á þessum tíma og aðeins van Hauwermeiren og nokkrir aðrir eru grunaðir um að hafa misnotað aðstöðu sína með þessum hætti og greitt konum fyrir kynlíf.

Vissu af ásökunum í Tjad

Í frétt Guardian, þar sem fyrst var upplýst um hvað gekk á í Tjad, kom fram að yfirstjórn Oxfam hafði vitneskju um að van Hauwermeiren hefði verið ásakaður um vændiskaup þar áður en hann var ráðinn til að leiða hjálparstarf samtakanna á Haítí með um 100 milljóna punda fjármagn eða um 14 milljarða króna sem fara áttu til neyðaraðstoðar.

Penny Lawrence, aðstoðarforstjóri Oxfam, sagði af sér í gær. „Það er nú ljóst að þessar ásakanir um kaup bæði landsstjórans og starfsmanna hans á vændi höfðu komið fram áður en hann var fluttur til Haítí,“ sagði í yfirlýsingu hennar vegna afsagnarinnar. Lawrence var verkefnastjóri hjá Oxfam er hneykslismálið kom upp. Hún segist hrygg að þetta hafi gerst á sinni vakt.

Hóta að hætta stuðningi

Bresk stjórnvöld hótuðu í kjölfar fréttar Times að hætta fjárstuðningi við Oxfam ef stjórnendur samtakanna myndu ekki taka siðferðislega ábyrgð. Sömu sögu er að segja af Evrópusambandinu. Forstjórinn er enn í starfi sem og stjórnarformaðurinn og mættu þeir báðir til fundar við ráðherra þróunarmála í gær þar sem farið var yfir stöðuna. 

Stjórnvöld á Haítí vilja frekari rannsókn á málinu og fá nöfn þeirra sem misnotuðu þegna landsins með þessum hætti. Krefjast þau þess að starfsmennirnir verði sóttir til saka

AfsökunarbeiðniOxfam hefur ekki nægt til að lægja óánægjuöldurnar á Haítí. Sendiherra landsins í Bretlandi segir að fórnarlömb starfsmannaOxfam hafi „mögulega verið börn undir lögaldri“. 

Mark Goldring, forstjóri Oxfam og Caroline Thomson, stjórnarformaður samtakanna, koma ...
Mark Goldring, forstjóri Oxfam og Caroline Thomson, stjórnarformaður samtakanna, koma af fundi með þróunarmálaráðherra Bretlands í gær. Bresk stjórnvöld hafa hótað að hætta að styrja samtökin í kjölfar hneykslisins. AFP

Nefnd sem hefur eftirlit með starfsemi breskra góðgerðarsamtaka mun taka málið til rannsóknar en stjórnendum Oxfam hefur verið gefinn frestur út vikuna til að semja aðgerðaáætlun um hvernig tekið verður á málum sem þessum í framtíðinni. „Á 21. öldinni er algjörlega fyrirlitlegt að kynferðislegt ofbeldi og misnotkun eigi sér enn stað í hjálparstarfi,“ sagði Penny Mordaunt, ráðherra þróunarmála í Bretlandi, í yfirlýsingu eftir fund sinn með stjórnendum Oxfam í gær. 

Priti Patel, forveri Mordaunt í starfi, segir að ásakanir á hendur starfsmönnum Oxfam séu aðeins „toppurinn á ísjakanum“. Mordaunt segir að öll góðgerðarsamtök verði að „taka af skarið og gera meira“ í kjölfar Oxfam-hneykslisins.

Vændishús við bústaði hjálparstarfsmanna

Julie Bindel er reyndur fréttamaður á stríðs- og hamfarasvæðum og skrifar í grein sem birt er á vef Independent  að Oxfam-hneykslið komi sér ekki á óvart. „Árið 1999 þegar ég fór í mína  fyrstu ferð til Kosovo sagði bílstjórinn mér að í kringum bústaði hjálparstarfsmanna væri búið að byggja vændishús því  svo margir karlmenn sem þar dveldu væru stórnotendur vændis. Þetta var að gerast þrátt fyrir að þessir menn væru að vinna að verkefnum gegn mansali.“

Þetta segist hún hafa séð víða um heim. Hún segir sér heldur ekki hafa komið á óvart að fólk hafi rokið til á samfélagsmiðlum til að verja vændiskaup starfsmanna Oxfam á Haítí með þeim orðum að kaup á kynlífi væri ekki misnotkun og að konur á Haítí hafi mögulega verið ánægðar að fá vinnu. 

„Þar hafið þið það. Hugmyndin um að konur í vændi á Haítí hafi með einhverjum hætti haft gagn af því að vera keyptar og seldar af sömu mönnum og áttu að hjálpa þeim að komast af í því helvíti sem þær voru staddar í,“ skrifar Bindel.

Um 200 manns voru sendir til Haítí á vegum Oxfam ...
Um 200 manns voru sendir til Haítí á vegum Oxfam í upphafi árs 2010 er jarðskjálftinn reið yfir. AFP

Hún minnir á að landsstjóri Oxfam á Haítí, Roland van Hauwermeiren, hafi borgað konunum með peningum sem góðgerðarsamtökin hefðu fengið í styrki í góðri trú. „Þetta var að gerast í kjölfar jarðskjálftans árið 2010 þar sem 220 þúsund manns létust, 300 þúsund slösuðust og 1,5 milljón manna urðu heimilislaus.“

Hún segir vændi þrífast víða um heim þar sem hjálparstarfsmenn, friðargæsluliðar og hermenn séu að störfum. „Þessir menn eru að ýta undir hræðileg mannréttindabrot. Þeir eru í bókstaflegri merkingu að styðja kerfi sem veldur eymd og hjartasári meðal kvenna og barna.“

Ekkert val

Á hamfarasvæðum eins og Haítí sé fólk í sérstaklegra viðkvæmri stöðu sem hjálparstarfsmenn séu þekktir fyrir að nýta sér. Bindel rifjar það upp í grein sinni þegar Kathryn Bolkovac var sagt upp sem eftirlitsmanni með starfsemi Sameinuðu þjóðanna í Bosníu árið 1999. Uppsögnin kom í kjölfar þess að hún tilkynnti um að starfsmenn stofnunarinnar hefðu greitt fyrir kynlíf, nauðgað stúlkum undir lögaldri og tekið þátt í mansali. „Ég var við störf á Balkanskaga er þetta fréttist. Ég talaði við marga starfsmenn Sameinuðu þjóðanna og margir karlanna reyndu að réttlæta vændiskaup með því að þeir væru svo lengi að heiman og „þyrftu“ kynlíf. Aðrir sökuðu Bolkovac um lygar.“

Nefnir Bindel fleiri dæmi um misnotkun hjálparstarfsmanna.

„Oxfam á að vernda viðkvæmar konur og börn í störfum sínum en samt hafa háttsettir karlar innan samtakanna gert hið gagnstæða. Það er ekkert annað en skammarlegt að stuðningsmenn vændis verji þessa brotamenn með því að leggja það til málanna að konur og börn sem hafi verið lokkaðar til kynlífs hafi á einhvern hátt haft „val“ og séu „fagmenn“ að vinna „vinnuna sína“. Þessar konur og stúlkur voru misnotaðar af körlum sem fá greidd há laun fyrir að reyna að gera líf þeirra aðeins bærilegra.“

mbl.is
Nokkrar notaðar saumavélar til sölu !!
Nokkrar tegundir, ýmsar gerðir. Allar ástandsskoðaðar og prófaðar af fagmanni. V...
KERRUR TIL AFGREIÐSLU SAMDÆGURS
Sterkbyggðu HULCO fjölnotakerrurnar, myndir á bland.is og á Facebook = Mex byggi...
INTENSIVE ICELANDIC,ENGLISH, NORWEGIAN & DANISH f. foreigners - ÍSLENSKA f. útl - - ENSKA f. fullorðna - DANSKA- NORSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA: I, II, III, IV, V, VI: 2019:SPRINGTERM / VO...