Elti töskuna sína inn í gegnumlýsingu

Lestarstöð í Kína. Mikið annríki er nú á lestarstöðvum í …
Lestarstöð í Kína. Mikið annríki er nú á lestarstöðvum í landinu, þar sem fók heldur heim í árlegt frí sitt í tilefni kínverska nýja ársins. Gegnumlýsingartæki eru á mörgum samgöngumiðstöðvum. AFP

Kona í Suður-Kína var tengd handtösku sinni svo nánum böndum að hún skreið eftir færibandinu inn í gegnumlýsingarskannann frekar en að láta töskuna úr augsýn.

Myndband sem sýnir skuggamynd konunnar þar sem hún skríður í gegnum skannann á lestarstöð sl. sunnudag, hefur fengið mikla útbreiðslu á kínverskum samfélagsmiðlum.

Í myndbandinu sést konan ferðast með færibandinu og koma svo út úr skannanum hinum megin. Sýnin veldur mikilli undrun hjá farþegum sem þar biðu eftir farangri sínum á lestarstöð í borginni Dongguan.

Myndbandið hefur þegar fengið rúmlega þrjár milljónir áhorfa.

Yangcheng-kvöldfréttablaðið segir konuna hafa haft áhyggjur af peningunum sem hún var með í töskunni og að þeim yrði stolið á meðan taskan væri í skoðun.

Skannar á borð við þessa eru algengir á samgöngumiðstöðvum í Kína og eru þeir m.a. á nokkrum neðanjarðarlestarstöðvum og rútustöðvum.

Hafa sumir samfélagsmiðlanotendur hæðst að konunni og sagt hana skrýtna að meta peningana meira en eigin heilsu. Myndatökubúnaðurinn sem notaður er til gegnumlýsingar er mjög öflugur og geislarnir í honum skaðlegir heilsu manna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert