44 ár fyrir að útvega byssuna

Fáni Ríkis íslams.
Fáni Ríkis íslams.

Ungur maður sem útvegaði unglingspilt byssu sem hann gæti notað til þess að skjóta starfsmann lögreglunnar í Ástralíu til bana var í dag dæmdur í 44 ára fangelsi. Maðurinn heilsaði að hætti vígasamtakanna Ríki íslams þegar dómurinn var kveðinn upp.

Raban Alou, sem er tvítugur að aldri, játaði við réttarhöldin að hafa útvegað og afhent  Farhad Mohammad, 15 ára, skammbyssuna í mosku í Sydney árið 2015. Mohammad notaði byssuna til þess að skjóta Curtis Cheng í höfuðið fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar í New South Wales. Mohammad, sem fæddist í Íran, var skotinn til bana af lögreglu skömmu eftir morðið. 

Alou á ekki möguleika á náðun næstu 33 árin en hann var fundinn sekur um að aðstoða og hvetja til glæps og veita aðstoð við hryðjuverk.

Í frétt Australian Broadcasting Corporation kemur fram að hann hafi heilsað að hætti Ríki íslams, það er lyfti einum fingri upp til himins og kallað: „Þetta er aðeins upphafið“ þegar hann var leiddur á brott úr réttarsalnum.

Að sögn dómarans, Peter Johnson, þá sýndi Alou enga iðrun og hann hafi skipulagt ódæðið í þaula.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert