Fíll í litlum fangaklefa

Sunny eyðir öllum dögum inni í þessu litla búri.
Sunny eyðir öllum dögum inni í þessu litla búri.

Fyrir tæpum þremur áratugum var asíski fíllinn Sunny fönguð og flutt í dýragarð í Japan þar sem hún var lokuð inni í smáu búri. Í þessum steinsteypta klefa með járnstöngum hefur hún síðan dvalið að mestu allar götur síðan. Hún er vissulega einmana og bera klórför á veggjum klefans þess glöggt merki.

Á dýrasíðunni The Dodo er fjallað um átakanlega ævi Sunny. Nær einu samskiptin sem hún á í er við starfsmenn dýragarðsins er þeir koma í stutta sinn inn á ganginn hennar til að gefa henni að éta. Til að komast hjá því að snerta hana ýta þeir henni til með járnstöng. 

Við búrið er útigerði en þangað fær Sunny sjaldan að fara. 

„Hún stendur á steyptu gólfi í langan tíma í einu sem er slæmt fyrir fætur hennar,“ hefur The Dodo eftir Ulara Nakagawa, stofnanda dýraverndunarsamtakanna Elephants in Japan

Nakagawa stofnaði samtökin í minningu annars fíls, Hanako, sem var innilokaður í 68 ár áður en hann drapst í dýragarði árið 2016. Í kjölfar hófst rannsókn nokkurra dýrasamtaka á aðbúnaði fíla í japönskum dýragörðum. Í ljós kom að yfir tugur dýragarða hafa fíla lokaða inni mest allan sólarhringinn.

Sunny hittir aldrei önnur dýr en fílar eru miklar félagsverur og úti í náttúrunni halda þeir sig í stórum hjörðum. Nakagawa segir að Sunny sé með mörg einkenni langrar einangrunar. Fílar sem lengi eru lokaðir af verða leiðir, pirraðir og jafnvel þunglyndir. 

Samtökin Elephants in Japan hafa hafið undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að fílarnir sem eru í einangrun dýragarðanna líkt og Sunny verði sleppt. Er hvatt til þess að fílarnir verði fluttir á stað þar sem þeir geta umgengist önnur dýr af sinni tegund og notið frelsis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert