Íslendingar gætu dregist inn í tollastríð

Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði, segir að tollastríð gæti hægt ...
Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði, segir að tollastríð gæti hægt á heimshagkerfinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hvernig sem á það er litið eru þetta ekki góðar fréttir,“ segir Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, um tollastríðið sem virðist yfirvofandi á milli Bandaríkjanna og Kína.

Gylfi segir að óvíst sé hvernig framhaldið verði, en nokkur skjálfti hefur verið á hlutabréfamörkuðum eftir að Kínverjar settu innflutningstolla á 128 vöruflokka frá Bandaríkjunum í gær. Það var svar Kínverja við þeirri ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta að leggja tolla á innflutt stál og ál, með það að markmiði að vernda bandaríska stál- og áliðnaðinn.

Ekki þykir ólíklegt að stórveldin tvö tilkynni um enn frekari tollahækkanir á næstunni og Evrópusambandið hefur sömuleiðis gagnrýnt Bandaríkin fyrir verndartollana og hótað gagnaðgerðum.  

„Ef þetta verða bara einhverjar smá skærur sem enda með einhverjum samningum þyrfti það nú ekki að hafa nein djúpstæð eða varanleg áhrif á heimshagkerfið, en ef þetta fer á versta veg og endar með einhverju viðskiptastríði sem fleiri myndu dragast inn í, Evrópusambandið og fleiri viðskiptastórveldi, þá væri það afar slæmt og gæti valdið umtalsverðu bakslagi í heimshagkerfinu,“ segir Gylfi og bætir því við að hægt sé að teikna upp alls konar sviðsmyndir um framhaldið, bæði einhverjar sem líti þokkalega út og svo „mjög svartar“.

„Ég treysti mér ekki til að spá fyrir um hver þeirra verður að raunum, maður verður eiginlega bara að vona það besta.“

Gæti haft áhrif á Íslandi

Gylfi segir að erfitt sé að sjá eitthvað jákvætt við tollastríð fyrir okkur Íslendinga, en Ísland sem einangrað eyríki er mjög háð inn- og útflutningi og tollfrjálsum milliríkjaviðskiptum.

„Við gætum dregist beint inn í svona stríð. Til dæmis erum við talsvert stór í álútflutningi og ál er ein af þeim afurðum sem Trump ætlar að setja tolla á. Að vísu flytjum við okkar ál ekki út til Bandaríkjanna, heldur fyrst og fremst til Evrópu, en það er auðvitað heimsmarkaður með ál og það sem kemur fyrir ál í Bandaríkjunum hefur áhrif utan Bandaríkjanna,“ segir Gylfi.

Álið er það fyrsta sem blasir við Gylfa þar sem Bandaríkjamenn hafa þegar sett 10% verndartolla á það, en hann segir einnig að mögulegt sé að viðskiptastríðið muni hafa áhrif á fleiri íslenskar útflutningsvörur ef illa fer.

Titringur er víða á mörkuðum í Asíu vegna hræðslu við ...
Titringur er víða á mörkuðum í Asíu vegna hræðslu við tollastríð á milli Bandaríkjanna og Kína. Þessi mynd er tekin í Tókýó í dag. AFP

„Síðan gætum við eins og allir aðrir fundið fyrir áhrifum af því ef það hægir á heimshagkerfinu. Það kemur niður á öllum. Það myndi koma niður á öllum okkar útflutningsatvinnuvegum, þar á meðal ferðaþjónustunni,“ segir Gylfi, sem segir þó of snemmt að segja til um hvernig þetta muni spilast.

„Auðvitað verða þeir sem sjá um hagsmuni Íslands í þessu að reyna að vernda þá, en þeir hafa nú kannski ekkert mörg góð spil á hendi, því að við höfum auðvitað ekki mikinn slagkraft í svona deilu.“

„Stílbrot“ ef Trump myndi hlusta á andmæli

Verndartollar í þágu innlends iðnaðar voru eitt af kosningaloforðum Donalds Trump árið 2016 og reyndust feykivinsælir á meðal fylgismanna hans, sér í lagi á þeim svæðum í Bandaríkjunum þar sem þungaiðnaður hefur verið á undanhaldi vegna aukinnar alþjóðlegrar samkeppni, sér í lagi frá Kina, þar sem framleiðslukostnaður er mun lægri en vestanhafs.

Nú eru þó bandarísk fyrirtæki byrjuð að lýsa yfir áhyggjum af mögulegu tollastríði við Kína. New York Times greinir frá því að stórfyrirtæki á borð við General Electric og Goldman Sachs auk landbúnaðarfyrirtækja hafi lagt mótmæli inn á borð Hvíta hússins og telji að tollamúrar og hömlur á erlendar fjárfestingar muni útiloka bandarísk fyrirtæki frá hinum ört vaxandi kínverska markaði.

Donald Trump lofaði aðgerðum til að vernda bandarískan iðnað í ...
Donald Trump lofaði aðgerðum til að vernda bandarískan iðnað í kosningabaráttu sinni. Kínverjar hafa nú svarað verndartollum hans á stál og ál. AFP

Gylfi segir að verndartollar Trump hafi ekki mikinn stuðning á þingi, né innan Repúblikanaflokksins, en óvíst sé að það hafi teljandi áhrif þar sem hann hefur verulegt sjálfræði um ákvarðanir sem þessar.

„Mörg fyrirtæki og stjórnendur þeirra sjá auðvitað engan hag í þessu, sérstaklega ekki fyrirtæki sem eru í útflutningi frá Bandaríkjunum. Það eru kannski fyrst og fremst stjórnendur í stáliðnaði eða jafnvel áliðnaði sem sjá eitthvað jákvætt við þetta. Það eru eiginlega allir aðrir sem leggjast hart gegn þessu og það skiptir máli, en það er nú ekki víst til þess að það dugi til þess að stöðva Trump. Hann hefur nú iðulega gert lítið af því að hlusta á raddir sem að andmæla honum, þannig að það væri nú nánast stílbrot ef hann færi að gera það í þessu,“ segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Trúlofunar- og giftingarhringar í úrvali
Auk gullhringa eigum við m.a. hvítagull, silfur og titaniumpör á fínu verði. Dem...
Trampolin til sölu
Stoj tampolin til sölu fyrir kr. 15.000,-. Stærð: Þvermál:244 cm X 60 cm x 150 ...
KRISTALS LJÓSAKRÓNUR
Glæsilegar kristalsljósakrónur fyrir falleg heimili. Handskornar kristalsljósak...
Sumarbústaðalóðir til sölu í Vaðnesi
Til sölu fallegar sumarhúsalóðir með aðgangi að heitu og köldu vatni í vinsælu s...