Svíþjóðardemókratarnir klofna

Jimmie Åkeson, leiðtogi Svíþjóðardemókratana, segist ekki sakna þeirra sem yfirgefa …
Jimmie Åkeson, leiðtogi Svíþjóðardemókratana, segist ekki sakna þeirra sem yfirgefa flokkinn. AFP

Svíþjóðardemókratarnir eru í klofningsbaráttu og hefur flokkurinn misst tvo þingmenn úr röðum sínum yfir til nýs framboðs undir forystu fyrrum formanns ungliðahreyfingu Svíþjóðardemókrata, Gustav Kasselstrand, sem var vísað úr flokknum árið 2015 vegna deilna um kosningu forystu flokksins í Stokkhólmi.

Kasselstrand tilkynnti 5. mars síðastliðinn að hann hefði stofnað nýjan flokk undir nafninu Alternativ för Sverige eða Valkostur fyrir Svíþjóð, var haft eftir hann í Expressen að þetta nýja framboð ætlar að sækja á kjósendur Svíþjóðardemókratana. Upplýsingafulltrúi Svíþjóðardemókratana sagðist hinsvegar „ánægður með að við sleppum við að hafa fólk með rasískar fyrirætlanir og hegðunarvandamál í okkar flokki.“

Gustav Kasselstrand leiðir klofningsframboð úr Svíþjóðardemókrötunum.
Gustav Kasselstrand leiðir klofningsframboð úr Svíþjóðardemókrötunum. Ljósmynd/Vefsvæði Alternativ för Sverige

Varaformaður Valkosts fyrir Svíþjóð er William Hahne sem einnig var vísað úr Svíþjóðardemókrötunum eftir að hann hlaut kjör formanns Svíþjóðardemókratana í Stokkhólmi árið 2015.

Valkostur fyrir Svíþjóð hyggjast bjóða fram í þingkosningunum sem haldnar eru þann 9. september.

Þingmenn yfirgefa flokkinn

Tíu dögum eftir stofnun hins nýja flokks var Olle Felten, þáverandi þingmaður Svíþjóðardemókrata, vísað úr sínum flokki undir þeim formerkjum að Felten hefði „umgengst og verið tengdur hægriöfgafólki og rasistum“. Hins vegar sagði að hann við Nyheter24 að hann hefði ákveðið að ganga til liðs við Valkost fyrir Svíþjóð áður en honum var vísað úr flokknum.

Rétt fyrir Páska tilkynnti þingmaðurinn Jeff Ahl á blaðamannafundi í sænska þinghúsinu að hann myndi ganga til liðs við Valkost fyrir Svíþjóð. Útskýrði hann ákvörðun sína með því að segja að Svíþjóðardemókratarnir hefðu gefið of mikið eftir fyrir Moderaterna í þinginu og kosningaloforð flokksins hafi verið svikin.

Síðastliðinn mánudag sagði Aftonbladet frá því að þriðji þingmaðurinn, Mikael Jansson, hefur gengið til liðs við Valkost fyrir Svíþjóð. Jansson hefur verið 25 ár í Svíþjóðardemókrötunum og hefur meðal annars gegnt formennsku í flokknum.

Hann sagði við fjölmiðla að breytt afstaða flokksins til NATO hefði ráðið för við úrsögn sína, en þingflokksformaður Svíþjóðardemókrata, Matthias Karlsson, hefur sagt stefnu flokksins gagnvart NATO hafa ekkert breyst og að málflutningur Janssons væri í besta falli fyrirsláttur. Þó hafa sumir þingmenn lýst því yfir að þeir vilji að aðild að NATO verði sett í þjóðaratkvæði.

Samhliða úrsögn þingmannana hafa nokkrir sveitarstjórnarmenn yfirgefið flokkin og gengið í hin nýja flokk.

Hafa samt meira fylgi en í kosningum

Þrátt fyrir innanhúsdeilur og stofnun nýs framboð benda kannanir ekki til þess að kjósendur Svíþjóðardemókrata séu ósáttir við flokkinn, en flokkurinn mælist með 16-22% fylgi í könnunum í mars og apríl. Flokkurinn fékk 12,86% í þingkosningunum árið 2014.

Fylgi Valkosts fyrir Svíþjóð mældist hæst í könnun Yougov í síðasta mánuði, en þá var fylgi flokksins innan við 2%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert