Hænurnar komnar á elliheimili

Frönskum varphænum er yfirleitt slátrað við átján mánaða aldur. Eftir það svara þær ekki lengur kostnaði, segir í frétt AFP-fréttastofunnar um varphænubúskapinn í Frakklandi. 

Hænsnabú hefur nú verið sett á fót sem lætur þessa óskrifuðu reglu sem vind um eyru þjóta og býður hænum, sem komnar eru af léttasta skeiði, framhaldslíf. Þar una þær sáttar við sitt, fá lífrænt fóður, læknisaðstoð ef þær þurfa á því að halda og geta svo vappað um engin ef þeim sýnist svo.

Að hugmyndinni standa þrír frumkvöðlar. Einn þeirra sagðist hafa fengið hugmyndina er hann heyrði af því að hænum væri kerfisbundið slátrað um leið og þær væru búnar að ná hátindi varpferils síns.

Hænurnar eru ekki hættar að verpa er þeim er slátrað og því verpa hænurnar á „elliheimilinu“ fjölmörgum eggjum sem seld eru til dýravina. Hvert egg er um helmingi dýrara en önnur frönsk egg en neytendur eru tilbúnir að borga það verð vitandi að hænurnar sem þeim verpa hafa það gott.

Á elliheimilinu, sem er í miðhluta Frakklands, er pláss fyrir 18 þúsund hænur sem geta þar eytt síðustu ævidögum sínum þar til þær drepast af náttúrulegum orsökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert