Önnur tilraun í Armeníu 8. maí

Armenska þingið mun koma saman 8. maí til að kjósa nýjan forsætisráðherra. Síðasta tilraunin til þess mistókst þegar þingið felldi kjör leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Nikol Pashinyan, í embættið.

„Hinn 8. maí mun armenska þingið hefja viðræður um spurninguna um kjör á nýjum forsætisráðherra,“ sagði Ara Babloyan, forseti þingsins.

Ef ekki tekst að kjósa forsætisráðherra í annarri tilraun verður þingið leyst upp og boðað til kosninga.

Mótmælendur í höfuðborginni Yerevan.
Mótmælendur í höfuðborginni Yerevan. AFP

Tugir þúsunda Armena hafa mótmælt stöðu mála í höfuðborg landsins.

Mikilvæg samgöngukerfi hafa verið stífluð, ásamt stjórnarbyggingum. Mótmælendur hafa verið af öllum toga, þar á meðal eldra fólk og nemar. Þjóðfánanum hefur verið veifað og fólk hefur hrópað: „Frjáls, sjálfstæð Armenía!“

Pashianyan leiddi mótmælagöngu og hét hann því að auka þrýsting á stjórnvöld. „Margir möguleikar eru í stöðunni og þegar hver og einn þeirra er skoðaður er ljóst að fólkið mun bera sigur úr býtum,“ sagði hann.

Ætla ekki að gefast upp        

„Fólkið mun ekki gefast upp, mótmælunum mun ekki linna,“ sagði Sergey Konsulyan, 45 ára kaupsýslumaður.

Gayane Amiragyan, 19 ára nemi, bætti við: „Við munum sigra vegna þess að við erum samstíga. Öll armenska þjóðin stendur saman.“

Nikol Pashinyan (með derhúfuna) í mótmælagöngunni.
Nikol Pashinyan (með derhúfuna) í mótmælagöngunni. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert