Weinstein gefur sig fram við lögreglu

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefur gefið sig fram við lögreglu í New York en gera má ráð fyrir því að hann verði ákærður fyrir kynferðisbrot. Fjöldi blaða- og fréttamanna sátu fyrir Weinstein þegar hann mætti á lögreglustöðina á Manhattan nú fyrir skömmu. BBC greinir frá.

Tugir kvenna í kvikmyndabransanum hafa sakað Weinstein um kynferðisofbeldi, þar á meðal nauðganir, en ásakanirnar hrundu af stað #metoo herferðinni. Sjálfur hefur hann alltaf neitað þessum ásökunum.

Ákærur á hendur Weinstein hafa ekki verið gerðar opinberar en New York Times greinir frá því að ein sé vegna ásakana leikkonunnar Lucia Evans sem kærði hann fyrir kynferðisbrot. Ekki liggur fyrir hvort um fleiri en eina ákæru er að ræða en lögreglan í New York hefur einnig haft til rannsóknar nauðgunarkæru sem leikkonan Paz de la Huerta lagði fram á hendur honum. Fyrr í þessum mánuði lagði Netflix-framleiðandinn Alexandra Canosa einnig fram gögn í máli á hendur honum fyrir nauðgun og kynferðislega áreitni.

Weinstein mætti á lögreglustöð á Manhatta nú fyrir skömmu.
Weinstein mætti á lögreglustöð á Manhatta nú fyrir skömmu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert