11 farast við strendur Túnis

Fólkið var um borð í fiskibáti um 30 km úti …
Fólkið var um borð í fiskibáti um 30 km úti fyrir strönd Túnis er hjálparbeiðni barst. Mynd úr safni. AFP

Lík ellefu hælisleitenda voru flutt í land og 67 hælisleitendum til viðbótar var bjargað er bátur þeirra tók að sökkva úti fyrir ströndum Túnis í nótt, að því er innanríkisráðuneyti landsins greindi frá í dag.

Fólkið var um borð í fiskibáti um 30 km úti fyrir strönd landsins er hjálparbeiðni barst. Leit stendur enn yfir á svæðinu með aðstoð kafara og herþyrlu og því kann tala látinna að eiga eftir að hækka.

Heimamenn og hælisleitendur sem koma til Túnis frá öðrum löndum reyna reglulega að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu í leit að betra lífi.

44 létust er bátur með hælisleitendur lenti í árekstri við herskip í október og hefur Youssef Chahed, forsætisráðherra Túnis, sagt málið vera „þjóðarharmleik“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert