Óttaðist að múgurinn myndi drepa hann

Mynd úr eftirlitsmyndavél sem sýnir sjúkrabíla á vettvangi í gær.
Mynd úr eftirlitsmyndavél sem sýnir sjúkrabíla á vettvangi í gær. AFP

Leigubílstjóri sem ók á vegfarendur í Moskvu í Rússlandi í gær, segist hafa tekið til fótanna því hann óttaðist að fólkið sem varð vitni að slysinu myndir reyna drepa hann. 

Myndskeið hafa verið birt sem sýna atvikið þar sem að minnsta kosti sjö vegfarendur, m.a. stuðningsmenn mexíkóska landsliðsins í knattspyrnu, slösuðust. Leigubílstjórinn sést fara út úr bílnum í mikilli geðshræringu, að því er virðist, og sést fólk hlaupa á eftir honum og sparka í hann. 

Leigubílstjórnin segist hafa verið á 20 tíma vakt og hafi fyrir mistök ýtt á bensíngjöfina í staðinn fyrir bremsuna, að því er segir á vef BBC.

Lögreglan í Mosvku handtók manninn sem er sagður vera 28 ára gamall karlmaður frá Kirgistan. Málið er nú í rannsókn. 

Atvikið átti sér stað við Ilyinka-götu sem er skammt frá Rauða torginu, sem er í hjarta Mosvku. 

Lögreglan birti myndskeið sem sýnir lögreglumenn yfirheyra leigubílstjórann.

„Ég vildi bremsa, ég vildi hleypa fólki í gegn,“ heyrist maðurinn segja í mikilli geðshræringu. „Það slokknaði á mér í eina sekúndu og ég ýtti á bensíngjöfina. Svo sá ég fólkið.“

Leigubílstjórinn segir að um slys hafi verið að ræða, en …
Leigubílstjórinn segir að um slys hafi verið að ræða, en hann segist hafa ekið í 20 tíma þegar atvikið varð. AFP

Hann segist hafa reynt að flýja af ótta við að fólkið myndi reyna að drepa hann. „Þau voru svo mörg.“

Hann sagði ennfremur, að hann hefði aðeins ná að festa svefn í um tvo tíma áður en hann hóf 20 tíma vakt. Maðurinn segist ekki drekka áfengi og segir að um slys hafi verið að ræða. 

Sjónarvottur á vettvangi er ekki á sama máli.

„Ég hef á tilfinningunni að hann hafi gert þetta viljandi því það var umferðarteppa og bílarnir fóru mjög hægt í gegn,“ segir Viktoria Geranovich.

„Hvernig gat hann misst stjórn á ökutækinu, gefið í og ekið á hópinn,“ spurði hún ennfremur.

Hún segir að stúlkur hafi verið í meirihluta þeirra sem urðu fyrir bifreiðinni. Fólk þusti á staðinn til að veita aðstoð og sjúkralið kom fljótt á vettvang. 

„Guði sé lof að allt fór vel. Það er hræðilegt að vita að þetta hafi gerst í sjálfri miðborginni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert