Zsa Zsa krýnd ljótasti hundur heims

Með langa, lafandi tungu og tilhneigingu til að slefa. Þannig er honum best lýst, enska bolabítnum Zsa Zsa sem varð þess heiðurs aðnjótandi um helgina að vera valinn ljótasti hundur í heimi. Keppnin fór fram í Petaluma í Kaliforníu og varð hörð að venju.

Tíkin Zsa Zsa, sem ber bleika hálsól með stolti í stíl við klærnar, naut athyglinnar sem hún fékk í sviðsljósinu. Fjórtán hundar voru skráðir til keppni en þeir áttu ekkert í Zsa Zsa.

Zsa Zsa er níu ára og hefur átt erfitt uppdráttar. Hún eyddi fimm árum í hvolpaverksmiðju í Mussouri og var svo seld á uppboði. En nú blasir björt framtíð við henni enda mikill heiður og jákvæð athygli sem fylgir því að hljóta titilinn ljótasti hundur í heimi.

Hún atti m.a. kappi við hinn hárlausa Rascal Deux, sem mætti til keppninnar með sólgleraugu og í hlébarðamunstruðum galla. Þá veitti Wild Thang henni harða keppni en hundurinn sá er mjög loðinn.

Martha, sigurvegari síðasta árs, var að sjálfsögðu mætt til að krýna nýjan sigurvegara. 

Keppnin um ljótasta hund heims er haldin til að vekja athygli á aðbúnaði hunda. Margir þeir sem taka þátt ár hvert hafa upplifað mikið mótlæti í lífinu og búið við erfiðar aðstæður. En nýir eigendur  þeirra eru stoltir af þeim, jafnvel þó að þeir séu ekki þeir fríðustu sem fyrirfinnast í veröldinni.

mbl.is