Frakkar taka upp þegnskyldu

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron.
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron. AFP

Ríkisstjórn Frakklands hefur kynnt áætlanir um að koma á þegnskyldu í landinu og mun hún taka til allra 16 ára einstaklinga. Þegnskyldan skiptist í tvo hluta, en sá fyrri er skylda en sá seinni er val og snýr að herþjónustu. BBC greinir frá.

Hugmyndin kom fyrst fram í kosningabaráttu Emmanuels Macron Frakklandsforseta. Með henni vildi hann ýta undir borgaralega skyldu og samkennd ungra Frakka.

Fyrri hluti þegnskyldunnar er eins mánaðar löng dvöl með áherslu á borgaramenningu, og á hún að hvetja ungt fólk til að skapa ný sambönd og þróa hlutverk sitt í samfélaginu. Sjálfboðakennsla og vinna með góðgerðarsamtökum er meðal þess sem verið er að skoða í sambandi við verkefnið, auk undirbúnings fyrir störf með hernum, slökkviliði eða lögreglu.

Seinni hlutinn er valfrjáls dvöl í þrjá mánuði hið minnsta, eða allt að árslöng, þar sem ungt fólk verður hvatt til þess að þjóna öryggis- og varnarstörfum. Því mun þó einnig bjóðast að sinna sjálfboðavinnu í tengslum við þjóðararfleifð, umhverfi eða félagslega ummönnun.

Gagnsemi áætlana Macrons er umdeild, en upphaflega hugmynd hans var mun stórtækari. Sextíu prósent þjóðarinnar styðja þó hugmyndina samkvæmt skoðanakönnunum. Hlutfallið fer þó niður fyrir 50% ef svör ungs fólks eru skoðuð.

Nokkur ungmennafélög hafa þegar gagnrýnt áætlanirnar og segja að mikilvægt sé að ungt fólk hafi val í málum sem þessum. Þá þarf einnig að slétta úr ýmsum lagalegum misfellum vegna hugmyndarinnar, en samkvæmt frönskum lögum má ekki þvinga heilan hluta þjóðarinnar til þess að eyða tíma fjarri heimili sínu nema það tengist landvörnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert