Ellefu úr fjölskyldunni fundust látin

Nágranni kíkir út um glugga húss sem stendur á móti …
Nágranni kíkir út um glugga húss sem stendur á móti því sem fjölskyldan bjó í. AFP

Ellefu manns úr sömu fjölskyldu fundust látnir í húsi í Nýju-Delí á Indlandi, tíu þeirra héngu úr loftinu, að sögn lögreglunnar. Kona á áttræðisaldri var sú eina sem fannst látin á gólfi hússins. Flestir hinna látnu voru með bundið fyrir augun og munn og hendur þeirra bundnar fyrir aftan bak. 

Rannsókn lögreglu hefur enn ekki leitt í ljós hvað býr að baki en segist ekki útiloka að fólkið hafi allt verið myrt. Í yfirlýsingu lögreglunnar segir að fundist hafi sönnunargögn um „dularfulla iðju“ fjölskyldunnar. Benti lögregla á að á vettvangi hefðu fundist handskrifaðir miðar sem bentu til þessa.

Enn er beðið niðurstöðu krufningar. Þá er einnig verið að taka skýrslur af nágrönnum og skoða myndefni úr eftirlitsmyndavélum í nágrenni hússins. 

Fjölskyldan hafði búið í Burari-hverfinu í Delí í yfir tuttugu ár. Hún rak tvær verslanir á neðri hæðum hússins sem hún fannst látin í.

Það var nágranni fólksins sem fann líkin er hann kom til að kaupa mjólk í gærmorgun, segir í frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert