Lopez Obrador nýr forseti Mexíkó

Andres Manuel Lopez Obrador hefur lýst yfir sigri í forsetakosningunum í Mexíkó í gær. Hann hét því í sigurræðu sinni í Mexíkóborg að fara í miklar umbætur en sagði ástæðulaust fyrir íbúa landsins að óttast óhóflegt ráðríki sitt í embætti. Verkefnið væri ósvikið lýðræði. „Við ætlum ekki að búa til einræðisríki, hvorki opinbert né falið,“ sagði Lopez Obrador sem þekktur er undir skammstöfun nafns síns: AMLO. Hét hann því að standa vörð um einkageirann og halda vináttu og samstarfi við Bandaríkin.

Talið er að Lopez Obrador, sem er vinstrisinnaður og fyrrverandi borgarstjóri, hafi fengið um 53% atkvæða eða um tvöfalt meira fylgi en sá sem næst flest atkvæði hlaut. Hann mun taka við embætti 1. desember.

Lopez Obrador hefur heitið því að taka ofbeldi í landinu föstum tökum og útrýma spillingu sem hann segir til komna vegna „rotnandi“ stjórnmála síðustu ára. „Við erum algjörlega sannfærð um að þetta illa afl er helsta ástæða félagslegs og efnahagslegs ójafnréttis,“ sagði hann. „Vegna spillingar hefur ofbeldið aukist í landinu okkar.“ 

Forsetinn tilvonandi hefur einnig heitið því að bæta samband Mexíkó við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar stofnanir sem standa vörð um mannréttindi. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti óskaði Lopez Obrador til hamingju með sigurinn og sagðist hlakka til að starfa með honum. 

Í frétt CNN um kosningarnar í Mexíkó er bent á að 89 milljónir hefðu haft kosningarétt og þar af heil kynslóð ungs fólks sem hefði alist upp í spillinug og ofbeldi tengdu fíkniefnum í landinu. Um 13 milljónir ungs fólks hefði kosningarétt og var fyrirfram talið að það myndi ráða úrslitum í kosningunum. Undir stjórn Peña Nieto núverandi forseta hefur morðtíðni hækkað mikið og hefur hann verið sakaður um að hafa mistekist að taka á glæpaöldunni í landinu. 

Andres Manuel Lopez Obrador fagnar sigri ásamt stuðningsmönnum sínum í …
Andres Manuel Lopez Obrador fagnar sigri ásamt stuðningsmönnum sínum í Mexíkóborg. AFP
Margt ungt fólk var í hópi stuðningsmanna Andres Manuel Lopez …
Margt ungt fólk var í hópi stuðningsmanna Andres Manuel Lopez Obrador. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert