Notuðu Fan ID til að finna ræningja

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sýnir stoltur sitt auðkenni, Fan ID, á …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti sýnir stoltur sitt auðkenni, Fan ID, á leikvanginum í Sochi. AFP

Talið er að aðdáenda-auðkenni á heimsmeistaramótinu í fótbolta, svokallað Fan ID, hafi leitt til handtöku manns sem eftirlýstur hefur verið í Brasilíu í tvö ár fyrir rán á pósthúsi. Málið hefur vakið upp spurningar um meðferð þeirra gagna sem rússnesk yfirvöld geta aflað í gegnum auðkennið. Allir gestir mótsins þurfa að fá slík skilríki sem þýðir að 1,6 milljónir manna hafa veitt yfirvöldum aðgang að ýmsum persónuupplýsingum, m.a. um það þegar þeir mæta á leiki.

Í ítarlegri fréttaskýringu New York Times er því lýst að Rodrigo Vicentini, pósthúsræninginn eftirlýsti, hafði nýlokið við að fylgjast með landsliði sínu skora tvö mörk í leik sínum gegn Kosta Ríka 22. júní er hann var handtekinn af rússneskum lögreglumönnum. Þeir höfðu borið saman lista Interpol yfir eftirlýsta menn og upplýsingar úr gagnagrunni Fan ID og handtekið hann er hann yfirgaf leikvanginn. Hann verður nú framseldur til Brasilíu.

Bakgrunnur allra kannaður

Rússnesk lögregluyfirvöld segjast hafa gert bakgrunnskönnun á öllum þeim sem fengu Fan ID í samvinnu við starfsbræður sína víða um heim. Þetta hafi verið gert til að koma í veg fyrir hryðjuverk og til að koma í veg fyrir að fótboltabullur, sem þekktar eru fyrir ólæti, kæmust inn í landið og á leikina.

Hins vegar segjast þau fara að ströngum reglum um meðferð upplýsinganna samkvæmt samningi rússneskra stjórnvalda og Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA. 

Í grein New York Times er haft eftir fyrrverandi öryggisstjóra hjá FIFA að slíkar bakgrunnskannanir séu skiljanlegar og að enginn geti neitað þeirri hryðjuverkaógn sem Rússar standi frammi fyrir. 

En margir hafa orðið til að gagnrýna þessa gagnaöflun. Bent hefur verið á að fólk flaggi Fan ID stolt, það sé nokkurs konar stöðutákn og minjagripur um veru á heimsmeistaramótinu. En yfirvöld hafa með þessu kerfi, sem er í fyrsta skipti notað á HM í ár, aflað margvíslegra persónuupplýsinga um hvern og einn gest. Heimilisfang, tölvunetfang, símanúmer og fleira er meðal þessara gagna en einnig er hægt að sjá hvar viðkomandi hefur t.d. verslað (samkvæmt afsláttarkerfi skilríkjanna) og á hvaða leiki hann mætir. 

Eftirlitshagkerfi

„Þetta er hluti af eftirlitshagkerfi þar sem þér er boðið eitthvað sem hljómar spennandi, eins og það að komast auðveldlega inn á íþróttaleiki, í skiptum fyrir verðmætar persónuupplýsingar,“ hefur New York Times eftir Timothy Edgar, gagnaöryggissérfræðingi í Brown-háskóla.

„Rússar ættu að eyða öllum þessum upplýsingum um leið og mótinu lýkur,“ segir hann. „Um leið og gagnanna er ekki lengur þörf ættu þeir að gera það, því annars er hætta á að þeim verði lekið eða þau glatist.“

Þetta telja sumir raunverulega ógn í landi sem er þekkt fyrir tölvuinnbrot. 

Yfirvöld í Katar, sem mun halda næsta heimsmeistaramót í knattspyrnu, eru nú að skoða þetta auðkenniskerfi Rússanna svo mögulegt er að það sé komið til að vera. 

mbl.is

Bloggað um fréttina