Viðskiptaþvinganir gagnvart N-Kóreu í fullu gildi

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur fundað stíft með ráðamönnum í …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur fundað stíft með ráðamönnum í Norður-Kóreu, Suður-Kóreu og Japan síðustu daga. AFP

Viðskiptaþvinganir gagnvart Norður-Kóreu verða í fullu gildi þar til ríkið hefur hætt allri kjarnorkuframleiðslu og kjarnorkutilraunum. Þetta fullyrti Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í Tokyo eftir fund með starfsbræðrum sínum frá Japan og Suður-Kóreu.

Pompeo er nýkominn frá Norður-Kóreu þar sem hann átti fund með Kim Yong-chol, emb­ætt­is­manni Norður-Kór­eu­stjórn­ar. Á fundinum var kjarn­orku­sam­komu­lag Banda­ríkj­anna og Norður-Kór­eu til umræðu og sagði Pompeo eftir fundinn að árangur hefði náðst. Stjórnvöld í Norður-Kóreu voru ekki sama sinnis og sendu frá sér yfirlýsingu þar sem segir að afstaða Bandaríkjanna til samningsins sé sorgleg og valdi þeim áhyggjum.

Pompeo er sannfærður um að árangur hafi náðst í viðræðunum, en að það eitt og sér nægi ekki til að slaka á viðskiptaþvingunum. Pompeo ræddi niðurstöðu fundarins með norður-kóreskum yfirvöldum við ráðamenn frá Suður-Kóreu og Japan í Tokyo í gær.

Utanríkisráðherrann verður áfram á faraldsfæti og heldur næst til Víetnam og Abu Dhabi. Því næst heldur hann á fund NATO-ríkja í Brussel í vikunni þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti verður einnig viðstaddur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert