Björgunaraðgerðum frestað í bili

Sjúkrabíll flytur einn drengjanna af herflugvelli í borginni Chiang Rai …
Sjúkrabíll flytur einn drengjanna af herflugvelli í borginni Chiang Rai og áleiðis á sjúkrahús í dag. AFP

Átta drengjum hefur verið bjargað úr Tham Luang-hellinum í norðanverðu Taílandi, fjórum í gær og fjórum til viðbótar í dag. Þetta hefur verið staðfest af taílenskum yfirvöldum. Frekari björgunaraðgerðum hefur verið frestað í bili, að sögn Narongsaks Osottanakorns, sem stjórnar aðgerðum á vettvangi.

Hann sagði á blaðamannafundi nú fyrir skemmstu að það gætu liðið allt að 20 klukkustundir þar til unnt yrði að senda kafara inn í hellinn á ný. Breska blaðið Guardian greinir frá þessu. 

Ekkert hefur verið gefið út um líðan þeirra fjögurra sem bjargað var í dag, en fjórir drengir til viðbótar auk knattspyrnuþjálfarans Ekapols Chantawongs eru enn inni í hellinum og bíða björgunar.

Drengirnir hafa farið beint af vettvangi með sjúkraþyrlum og -bílum, að því er sjónarvottar á vettvangi greina frá. Aðstandendur drengjanna, sem bíða í ofvæni eftir fréttum af líðan þeirra, hafa ekki enn fengið að vita hverjir drengjanna eru komnir á spítala í héraðshöfuðborginni Chiang Rai og hverjir eru enn fastir í hellinum.

Fjölskyldurnar hafa raunar ákveðið í sameiningu að vera allar saman við hellismunnann þar til allir drengirnir og þjálfari þeirra eru komnir út, að því er CNN  hefur eftir ættingja á svæðinu.

Kafarar að störfum inni í Tham Luang-hellinum.
Kafarar að störfum inni í Tham Luang-hellinum. AFP

Stjórnandi aðgerða á vettvangi, Narongsak Osottanakorn, segir að ekki verði gefið út hverjum hafi verið bjargað að svo stöddu, af virðingu við aðstandendur þeirra drengja sem enn eru fastir inni í hellinum.

Greint hefur verið frá því að drengjunum sem var bjargað í gær sé haldið í einangrun á spítala, þar sem ónæmiskerfi þeirra gæti verið viðkvæmt eftir vistina í hellinum, en þar höfðu þeir verið allt frá 23. júní síðastliðnum. Þeir munu vera við ágæta heilsu.

Veðurspáin lítur ágætlega út fyrir áframhald björgunaraðgerða, en ekki er lengur búist við jafnmikilli rigningu á svæðinu og fyrri veðurspár gerðu ráð fyrir.

Heimurinn fylgist með. Skólabörn í borginni Ahmedabad í Indlandi senda …
Heimurinn fylgist með. Skólabörn í borginni Ahmedabad í Indlandi senda jafnöldrum sínum í hellinum í Taílandi hlýja strauma. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert