Átta drengjum verið bjargað

Fimmti drengurinn sem bjarga tókst í morgun var fluttur í …
Fimmti drengurinn sem bjarga tókst í morgun var fluttur í sjúkrabíl frá hellismunnanum og í þyrlu sem flutti hann á sjúkrahús. AFP

Átta drengir eru nú komnir út úr hellinum á Taílandi að því er sjónarvottar segja. Í morgun hefur því fjórum drengjum til viðbótar verið bjargað við þá fjóra sem tókst að koma út úr hellunum í gær. CNN hefur eftir heimildum að aðgerðum sé nú lokið í dag en tekið er að kvölda á Taílandi.

Átján kafarar fóru inn í hellinn í morgun í átt að drengjunum og fluttu svo tveir saman hvern pilt hina fjögurra kílómetra löngu og ströngu leið út úr hellinum. Einnig unnu kafarar að því að tryggja línur sem settar voru upp í göngunum sem drengirnir fikra sig svo eftir. Þeir þurfa að skríða, vaða, kafa og klifra til að komast út.

Reuters er meðal þeirra fréttamiðla sem greint hafa frá því að átta piltar séu nú komnir út; fjórir í gær og fjórir í morgun. Það þýðir að fjórir drengir og fótboltaþjálfarinn eru enn inni í hellinum.

AFP

Eftir fund björgunarteymisins í morgun, sem telur m.a. níutíu kafara, hermenn, lögreglumenn og heilbrigðisstarfsfólk, var ákveðið að hefja björgunaraðgerðir að nýju. Þær hófust um klukkan 11 að staðartíma, um 5 að íslenskum tíma. 

Þeir sem fara fyrir björguninni sem og yfirvöld á Taílandi gefa engar opinberar upplýsingar um gang aðgerðanna eða líðan piltanna. Fimmti drengurinn var fluttur rakleiðis í sjúkrabíl og að þyrlu sem flutti hann á sjúkrahús í næsta nágrenni. 

Drengirnir fjórir sem komust út í gær eru sagðir við góða heilsu. Þeir eru í einangrun á sjúkrahúsi og hafa foreldrar þeirra ekki enn fengið að hitta þá.

FIFA býður drengjunum á úrslitaleikinn

Forseti FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, hefur boðið drengjunum að vera viðstaddir úrslitaleikinn á heimsmeistaramóti karla í Rússlandi á sunnudaginn næstkomandi, hafi þeir heilsu og áhuga á. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafði einmitt stungið upp á hinu sama eftir að drengirnir fundust í síðustu viku.

Drengirnir hafa óskað eftir því að fá pad krapow að borða þegar þeir eru komnir í skjól. Það er hefðbundinn taílenskur réttur með basil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert