Allt fótboltaliðið komið út

Gríðarleg gleði braust út meðal fólks sem safnast hafði saman ...
Gríðarleg gleði braust út meðal fólks sem safnast hafði saman fyrir utan sjúkrahúsið í þangað sem drengirnir hafa síðustu daga verið fluttir einn af öðrum. AFP

Nú hefur björgunarmönnum tekist að bjarga öllum drengjunum tólf sem og fótboltaþjálfara þeirra út úr hellinum í Chiang Rai-héraði á Taílandi. Þetta hefur taílenski herinn nú staðfest í Facebook-færslu þar sem segir m.a.: „Allir Villigeltirnir tólf og þjálfari þeirra eru komnir út úr hellinum - Hooyah!“ Einhverjir veðja nú á að orðið „hooyah“ verði orð ársins. Einnig stóð í færslunni: „Við vitum ekki hvort þetta er kraftaverk, vísindin eða hvað en allir þrettán Villigeltirnir eru komnir út.“

Fjórir kafarar eru enn sagðir inni í hellinum, þeirra á meðal læknir sem hefur sinnt drengjunum frá því að þeir fundust þar innlyksa. Drengirnir eru á aldrinum 11-17 ára. Þjálfarinn er 25 ára.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í hópi þeirra sem fylgst hafa með aðgerðum síðustu daga, ýmist í nágrenni hellisins eða við spítalann þangað sem drengirnir voru fluttir. Í hópnum eru m.a. ástvinir drengjanna og þjálfarans sem og fjölmargir sjálfboðaliðar sem sinnt hafa hinum ýmsu störfum í tengslum við aðgerðirnar.

Köfurum tókst að koma fjórum drengjum út á sunnudag, fjórum í gær og svo fjórum aftur í dag. Tveir kafarar fylgdu hverjum dreng út úr hellinum um fjögurra kílómetra leið. Þeir þurftu að skríða, vaða, kafa og klifra á leiðinni sem er að hluta mjög þröng. Fram hefur komið í dag að drengjunum voru gefin kvíðastillandi lyf áður en lagt var af stað.

Hópurinn fór inn í hellinn eftir fótboltaæfingu laugardaginn 23. júní. Tæplega tíu sólarhringum síðar komust kafarar loks að þeim og færðu þeim lyf og vistir. Þeim var svo kennt að kafa.

Fólk bíður fregna af björguninni í nágrenni hellisins, m.a. ástvinir ...
Fólk bíður fregna af björguninni í nágrenni hellisins, m.a. ástvinir drengjanna og fótboltaþjálfarans. AFP

Um níutíu sérþjálfaðir kafarar víða að úr heiminum hafa tekið þátt í björguninni. Þeir hafa lýst því í viðtölum að einstakt sé að svo ungir drengir neyðist til að kafa í helli sem er hættulegt.

Aðgerðin sem var nánast ómöguleg

Þó að margir hafi fundið fyrir miklum létti er drengirnir fundust á tíunda degi óttuðust margir að ekki yrði mögulegt að bjarga þeim úr þessu mikla hellakerfi sem teygir sig langt inn í fjallið. Ýmsar leiðir voru skoðaðar en að lokum var ákveðið að koma þeim út sömu leið og þeir fóru inn. Á þeirri leið voru mjög margar hættur, mikil þrengsli, gruggugt vatn og niðamyrkur. 

Nú verður allur hópurinn fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Þar verða þeir í einangrun í einhvern tíma, m.a. vegna sýkingarhættu.

Þeim sem bjargað var út úr hellinum dag höfðu dvalið í þröngum hellisskúta í átján daga. 

Skuggi hvílir þó yfir afrekinu því einn taílenskur kafari, Saman Kunan að nafni, lést í síðustu viku. Hann hafði ferjað súrefniskúta inn í hellinn til drengjanna og var á útleið á ný er hann missti meðvitund. Félagi hans reyndi endurlífgun en án árangurs og Kunan lést. Þeir sem fagnað hafa björgunarafrekinu í dag hafa margir hverjir minnst Kunans og hans mikilvæga þáttar. 

Fyrsta myndin af drengjunum í hellinum sem birt var skömmu ...
Fyrsta myndin af drengjunum í hellinum sem birt var skömmu eftir að þeir fundust. AFP
mbl.is
fágætar bækur til sölu
til lsölu nokkrar fágætar bækur Sneglu-Halli eftir Símon Dalaskáld Guðmundar...
Sendibílaþjónustan Skutla. Sími 867-1234
Tökum að okkur allrahanda sendibílaþjónustu á sanngjörnu verði. Sjá nánar á www....
Fágætar vínilplötur í Kolaportinu!!
Mikið úrval af fágætum vínilplötum í Kolaportinu við gluggavegg miðjan sjávarmeg...
UNDIR ÞESSU MERKI SIGRAR ÞÚ
Hálsmen úr silfri 6.900 kr., gulli 49.500 kr., (silfur m. demanti 11.500 kr., g...