Var „ekki til“ í norsku þjóðskránni

Frá Maridalnum í Ósló.
Frá Maridalnum í Ósló. Af Wikipedia

Fyrir nokkrum árum er Johnny Olsen, sem nú heitir John Edvin Lie, ætlaði að sækja um félagslega íbúð var honum sagt að hann „væri ekki til eða ekki á lífi“ samkvæmt norsku þjóðskránni. Það varð honum áfall. Hann var í raun ekki til fyrir yfirvöldum, segir lögmaður mannsins í samtali við Nettavisen. Lie er í haldi lögreglu, grunaður um að hafa drepið mann og svo kveikt í líki hans í skógi í Maridal í Ósló á miðvikudag. Árið 1982 var hann dæmdur í fangelsi fyrir að drepa tvo.

Í fréttaskýringu Aftenposten um Lie segir að allt til ársins 2001 hafi hann heitið Johnny Olsen í skrám hins opinbera. Þá skipti hann um nafn.

Lögreglan segir að Lie hafi búið á tjaldsvæðinu í skóginum í Maridalnum skammt frá þeim stað þar sem brennt líkið fannst. Spjótin beindust fljótt að Lie enda þekktur glæpamaður. Búið er að bera kennsl á líkið en þar sem aðstandendur hafa ekki allir verið látnir vita hefur nafn hans ekki verið birt í fjölmiðlum í Noregi að beiðni lögreglu.

Lie á sér langa glæpasögu. Hann var höfuðpaurinn í hinum svokölluðu Hadelands-morðum árið 1981. Hann og fjórir aðrir, sem allir voru liðsmenn nýnasistasamtaka Norges, Germanske Armé, höfðu stolið vopnum og 50 kílóum af dýnamíti. Ósætti kom í hópinn þegar tveir mannanna fengu ekki greitt fyrir sinn þátt í þjófnaðinum og óttuðust hinir tveir að þeir myndu fara til lögreglunnar. Til að koma í veg fyrir það drápu þeir mennina tvo.

Mennirnir voru skotnir í hnakkann svo þeir létust en eftir það voru þeir skotnir 29 sinnum með vélbyssu. Lie var dæmdur í átján ára fangelsi en var látinn laus árið 1993. Hinir tveir fengu einnig langa fangelsisdóma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert