Frumleg tilraun til að bjarga háhyrningi

J50 árið 2015, stuttu eftir að hún fæddist. Þá virtist …
J50 árið 2015, stuttu eftir að hún fæddist. Þá virtist hún heilbrigð og fylgdi móður sinni um hafið. Ljósmynd/NOAA

Til stendur að beita óvenjulegum aðferðum í tilraun til að bjarga veikum háhyrningi sem tilheyrir stofni í Norðvestur-Kyrrahafi sem er í mikilli útrýmingarhættu. Veika kýrin er fjögurra ára. Í sama stofni er tuttugu ára kýr sem syndir enn með hræ kálfs síns um hafið undan ströndum Kanada. Kálfurinn fæddist 24. júlí en drapst um hálftíma síðar. Kýrin hefur ýtt honum á undan sér í yfir tíu sólarhringa. Fjölskyldan syndir við hlið hennar.

Ítarlega er fjallað um hinar fyrirhugðu björgunaraðgerðir í frétt Seattle Times sem hefur fylgst náið með háhyrningunum. Stofninn telur nú aðeins 75 dýr og hefur hann ekki komið afkvæmi á legg í þrjú ár. 

J50 fæddist árið 2014 og hefur verið vel fylgst með henni síðan.

Vísindamenn banda­rísku Haf- og lofts­lags­stofn­un­ar­inn­ar, NOAA, náðu í síðasta mánuði sýnum úr sjó sem hin unga háhyrningskýr blés upp úr úr öndunaropi sínu. Kýrin er þekkt undir nafninu J50. Hún er orðin mjög horuð og í ljós kom að hún er með sýkingu. Neyðaráætlun yfirvalda er í bígerð en hún gengur m.a. út á það að sleppa lifandi chinook-laxi, stútfullum af lyfjum, hjá henni en laxarnir eru helsta fæða háhyrninganna. Þeim hefur, líkt og háhyrningunum, fækkað verulega á svæðinu síðustu misseri.

Talið er að J50 eigi aðeins nokkra daga eftir ólifaða ef ekkert verði að gert. Dýrið er svo horað að höfuðkúpubein þess sjást vel, segir í frétt Seattle Times. Þá er hvítur blettur á höfði hennar, rétt við öndunaropið, sem er talinn tilkominn vegna sýkingar.

Vísindamennirnir segja að J50 hafi misst um 20% af þyngd sinni á nokkrum mánuðum. „Það eru mörg „ef“ í þessu sambandi, hvort hún mun taka fiskinn eða ekki,“ hefur Seattle Times eftir líffræðingnum Brad Hanson. Hann segir að heilsu hennar haldi áfram að hraka og með þessu áframhaldi lifi hún aðeins í nokkra daga til viðbótar.
Vísindamennirnir fylgjast náið með kúnni. Þeir hafa flogið dróna yfir henni til að taka myndir og ætla að taka fleiri sýni, m.a. úr sjónum umhverfis hana. 
Neyðaraðgerðin hefur ekki enn verið samþykkt. „Þetta er nýstárleg hugmynd og við eigum enn eftir að gera ýmislegt til að meta áhættuna,“ segir Lynne Barre, sérfræðingur hjá NOAA. „Þarna er verið að hugsa svolítið út fyrir kassann, við verðum að meta hvaða fisk við notum, hvaða bát, hvenær við gerum þetta og hvernig.“
Hún segir hins vegar alveg ljóst að eitthvað verði að gera til að reyna að bjarga háhyrningnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert