Fékk 5 ára dóm fyrir að leka í fjölmiðla

Reality Winner í dómshúsinu í Augusta í Georgíu. Hún hlaut …
Reality Winner í dómshúsinu í Augusta í Georgíu. Hún hlaut 5 ára dóm fyrir að leka leynilegum upplýsingum NSA í fjölmiðil. AFP

Reality Winner, fyrrverandi verktaki hjá banda­rísku þjóðarör­ygg­is­stofn­un­inni NSA, hlaut í dag 5 ára dóm. Winner viðurkenndi að hafa deilt leynilegum upplýsingum með fjölmiðlum, en hún átti allt að 10 ára dóm yfir höfði sér.

Hún var handtekin á síðasta ári fyrir að leka NSA-skýrslu um meint afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016 í fjölmiðla. Dómurinn er að sögn BBC sá lengsti sem veittur hefur verið fyrir að deila leynilegum upplýsingum með fjölmiðli.

Winner starfaði sem málfræðingur hjá starfsstöð NSA í Georgíu þegar hún var handtekin í júní í fyrra og ákærð undir njósnalöggjöfinni.

Það var eftir að rannsakendur tóku eftir broti í myndum af skjölunum sem lekið var sem grunsemdir beindust að Winner. Brotið benti til þess að þau hefðu verið prentuð út og send þannig til fjölmiðilsins. Í ljós kom að Winner var ein af aðeins sex einstaklingum sem hafði prentað skjölin út. Þá benti rannsókn á borðtölvu hennar til þess að hún hefði átt í samskiptum við fréttastofu,“ að því er fram kemur í ákærunni.

„Ég misnotaði heimild mína til að prenta út skýrsluna,“ segir Fox News að Winner hafi sagt við fyrirtöku í júní. „Ég gerði það af fúsum og frjálsum vilja.“

Í skjölunum, sem var lekið til fréttavefjarins The Intercept, er fullyrti að njósnadeild rússneska hersins hafi staðið fyrir netárás á að minnsta kosti einn birgja kosningahugbúnaðar í Bandaríkjunum, dagana fyrir forsetakosningarnar. Þar eru Rússar einnig sakaðir um að hafa sent um 100 embættismönnum kjörstjórna vefveiðipóst (e. phishing). Ekkert bendi hins vegar til að aðgerðirnar hafi skilað einhverjum árangri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert