Lögreglan sökuð um leka

AFP

Lögreglan í austurhluta Þýskalands hefur í dag verið sökuð um að kynda undir ófriðarbál með því að leka upplýsingum til öfgahópa um handtökuskipun á hendur tveimur mönnum. Leiddi þetta til þess að til átaka kom á götum úti.

Þjóðverji, 35 ára karlmaður, var stunginn til bana í borginni Chemnitz aðfaranótt sunnudags. Lögreglan handtók tvo menn í tengslum við morðið og eru þeir frá Sýrlandi og Írak. Þeir eru báðir um tvítugt. 

AFP

Minnst 20 manns særðust í átökum í Chemnitz á mánudag. Tókust þar á öfgamenn og andstæðingar þeirra, en hátt í 1.000 manns mættu á mótmælin sem fram fóru við minnisvarða Karls Marx. Að sögn innanríkisráðherra Þýskalands var álagið á lögreglulið bæjarins svo mikið að nauðsynlegt var að senda þangað alríkislögreglumenn til aðstoðar.

Aðstoðarforsætisráðherra Saxlands, Martin Dulig, segir óásættanlegt að einhverjir lögreglumenn telji að þeir geti lekið upplýsingum sem þessum vitandi að það er brot á lögum. 

Yfirvöld hafa ekki veitt opinberlega upplýsingar um árásarmennina né heldur fórnarlambið líkt og lög kveða á um. Hins vegar var handtökuskipunin komin í hendur öfgafólks sem síðan birti upplýsingarnar á netinu. Upplýsingarnar fóru víða um netið en þar var að finna nöfn mannanna, fórnarlambsins, vitna og dómarans. 

AFP

Innanríkisráðherra Þýskalands segir birtinguna algjörlega óásættanlega og saksóknari hefur hafið rannsókn á því hvort lögreglan hafi brotið reglur sem gilda um leynd. 

Lögmaðurinn Sebastian Scharmer, sem er verjandi fórnarlamba ofbeldisverka nýnasista, segir að hann hafi lagt fram kæru á hendur aðgerðasinna sem birti handtökuskipunina, Lutz Bachmann, stofnanda öfgahreyfingarinnar PEGIDA í Þýskalandi. 

Bachmann var dæmdur árið 2016 vegna ummæla sinna um flóttamenn á Facebook í september 2014, skömmu áður en hann stofnaði PEGIDA-hreyfinguna sem segist berjast gegn „íslamsvæðingu“ Evrópu. Þýskir fjölmiðlar birtu seinna mynd sem Bachmann hafði tekið af sjálfum sér og sett á Facebook þar sem hann reyndi að líkjast Adolf Hitler, var með yfirvararskegg og hárgreiðslu eins og nasistaleiðtoginn.

AFP

Bachmann hefur nokkrum sinnum verið dæmdur sekur um glæpi. Hann var t.a.m. dæmdur í þriggja ára og átta mánaða fangelsi árið 1998 fyrir nokkur innbrot en flúði til Suður-Afríku með falsaða vegabréfsáritun. Eftir að hann var framseldur þaðan til Þýskalands sat hann í fjórtán mánuði í fangelsi í Dresden. Hann var einnig dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni eftir að kókaín fannst í fórum hans.

Önnur þjóðernissamtök, Bürgerbewegung Pro Chemnitz, sem einnig höfðu dreift handtökuskipuninni kvarta á Facebook yfir því að netlögreglan hafi eytt skjalinu sem, að sögn samtakanna, sýndi hvernig mennirnir hefðu „slátrað“ Þjóðverja.

AFP

Þjóðernishreyfingar njóta mikils stuðnings í Saxlandi en íbúar þar eru margir ósáttir við ákvörðun kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, um að opna landamæri landsins fyrir fólki sem var á flótta undan stríði og öðrum hörmungum. 

Lögreglan þar hefur einnig legið undir ámæli fyrir stuðning margra yfirmanna við PEGIDA og aðra stjórnmálaflokka sem eru á móti innflytjendum (AfD).

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert